Körfubolti

Curry í aðalhlutverki þegar Golden State tók forystuna gegn Houston | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Curry, verðmætasti leikmaður tímabilsins, skoraði 34 stig í nótt.
Curry, verðmætasti leikmaður tímabilsins, skoraði 34 stig í nótt. vísir/getty
Stephen Curry skoraði 34 stig þegar Golden State Warriors tók forystuna í einvíginu gegn Houston Rockets með fjögurra stiga sigri, 110-106, í fyrsta leik liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í nótt.

Golden State, sem var með bestan árangur allra liða í deildinni í vetur, var í vandræðum framan af leik og um miðjan 2. leikhluta var staðan 33-49, Houston í vil.

En Golden State átti frábæran endasprett í fyrri hálfleik og lauk honum með 21-4 kafla. Shaun Livingston var sérlega mikilvægur á þessum kafla en hann skoraði 14 af 18 stigum sínum í 2. leikhluta.

Golden State var þremur stigum yfir í hálfleik, 58-55, og hélt forystunni í þeim seinni þrátt fyrir gott áhlaup Houston í 4. leikhluta. Leiknum lyktaði loks með fjögurra stiga sigri Golden State, 110-106.

Curry og Livingston voru stigahæstir í liði Golden State og þá átti Draymond Green einnig flottan leik með 13 stig, 12 fráköst og átta stoðsendingar.

James Harden fór fyrir liði Houston með 28 stig, 11 fráköst og níu stoðsendingar.

Dwight Howard skilaði sjö stigum og 13 fráköstum fyrir Eldflaugarnar en miðherjinn þurfti að fara af velli í seinni hálfleik vegna meiðsla í hné.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×