Viðskipti innlent

„Hin meinta markaðs­mis­notkun á sér dýpri rætur í blekkingum og mála­mynda­gerningum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eigin viðskipti bankanna voru undanskilin því að tilkynna um viðskipti sín í Kauphöll.
Eigin viðskipti bankanna voru undanskilin því að tilkynna um viðskipti sín í Kauphöll. Vísir
Það kennir ýmissa grasa í svarbréfi Kauphallarinnar til Fjármálaeftirlitsins sem sent var haustið 2011 vegna gagnrýni sem FME setti fram á viðskiptaeftirlit Kauphallarinnar fyrir hrun.

Bréfið er á meðal gagna í markaðsmisnotkunarmáli sem sérstakur saksóknari hefur höfðað á hendur níu fyrrverandi starfsmönnum og stjórnendum Kaupþings. Er í bréfinu fjallað um meinta markaðsmisnotkun bankanna með eigin bréf fyrir hrun og hafa starfsmenn Kauphallarinnar verið spurðir út í efni bréfsins í vitnaleiðslum í dag.

Á meðal þess sem kemur fram í bréfinu, og starfsmenn Kauphallar hafa staðfest, er að þeir höfðu ekki allar upplýsingar varðandi viðskipti Kaupþings, Glitnis og Landsbankans með eigin hlutabréf. Þeir vissu til dæmis ekki að bankarnir lánuðu viðskiptavinum fyrir kaupum á hlutabréfum í bönkunum.

Hefðu litið viðskiptin öðrum augum

Björn Þorvaldsson, saksóknari, spurði Magnús Kristinn Ásgeirsson, sem var starfsmaður á eftirlitssviði Kauphallar, hvernig Kauphöllin hefði brugðist við ef hún hefði vitað að stjórnendur bankanna komu að viðskipum með eigin bréf.

„Við hefðum þá litið viðskiptin öðrum augum. Það hefði þá líka þurft að senda opinbera tilkynningu um viðskiptin,” sagði Magnús.

Eigin viðskipti bankanna voru undanskilin því að tilkynna um viðskipti sín í Kauphöll. Magnús sagði að hann hefði skilið þá undanþágu sem svo að hún byggði á því að stjórnendur fyrirtækis kæmu ekki að ákvarðanatöku með eigin bréf.

Úr bréfinu

Í bréfinu segir svo um hina meintu markaðsmisnotkun bankanna fyrir hrun:

„Óaðskiljanlegur hluti þeirrar meintu markaðsmisnotkunar sem bankanrnir stunduðu í aðdraganda hrunsins var salan á hlutunum sem eigin viðskipti bankanna keyptu og enn fremur lánveitingarnar sem með fylgdu. [...]

Erfitt og jafnvel ómögulegt [var] að sýna fram á að ekki sé um lögmæta viðskiptahætti að ræða án ítarlegra viðbótarupplýsinga. Vart hefði verið hægt að komast að þeirri niðurstöðu að kaup eigin viðskipta bankanna á eigin bréfum teldust til markaðsmisnotkunar án upplýsinga um að staða bankanna hefði verið fjármögnuð af þeim sjálfum án fullnægjandi veða og að bréfið hefðu ítrekað verið seld með tapi. [...]

Í þeim tilvikum sem hér um ræðir á hin meinta markaðsmisnotkun sér dýpri rætur í blekkingum og málamyndagerningum. Dýpri rætur sem ómögulegt var að greina út frá þeim upplýsingum sem Kauphöllin hafði aðgang að og var helst á færi innanbúðarmanna og aðila sem höfðu eftirlit með bönkunum að koma auga á. Mörgum hindrunum þurfti í reynd að ryðja úr vegi til þess að umræddir viðskiptahættir bankanna gætu gengið upp og því langstótt að Kauphöllin hefði átt að geta dregið þá ályktun að um óeðlileg viðskipti væri að ræða og hugsanlega markaðsmisnotkun. [...]

Veitt voru lán fyrir kaupverði bréfanna, í einhverjum tilvikum á mjög hagstæðum og jafnvel óeðlilegum kjörum, til þess að liðka fyrir sölunni og vihalda háu verði í viðskiptunum.”


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×