Skoðun

„Konuspil“ í rektorskjöri?

Birta Austmann Bjarnadóttir skrifar
Nú styttist í seinni umferð í rektorskjöri við Háskóla Íslands. Í framboði eru þau Jón Atli Benediktsson og Guðrún Nordal. Sem nemanda við HÍ skipta þessar kosningar mig miklu máli, ég vil stunda nám við öflugan og framsækinn háskóla og því tel ég mikilvægt að kynna mér málefni beggja frambjóðenda og taka upplýsta og málefnalega ákvörðun.

Jafnréttisáherslur

Það sem ég vil meðal annars sjá hjá nýjum rektor HÍ er aukin áhersla á jafnrétti innan skólans. Í aðdraganda kosninganna síðastliðinn mánudag var því afstaða frambjóðenda til jafnréttis nokkuð sem var mér ofarlega í huga þegar ég tók ákvörun um hvern ég kysi.  Að mínu mati voru rök Jóns Atla sannfærandi, en hann lagði meðal annars áherslu á mikilvægi þess að nýta kraft beggja kynja og vinna gegn íhaldssömum viðhorfum um hlutverk kynjanna sem hafa meðal annars skilað sér í kynskiptum vinnumarkaði og lágu hlutfalli kvenna í ábyrgðarstörfum. Með aukinni þekkingu má útrýma mismunun á grundvelli kyns og það er það sem Jón Atli vill stefna að.

„Konuspil“?

Ég fékk í gær miðvikudaginn 15. apríl SMS frá sendanda sem kallar sig „Rektor 2015“, þessi skilaboð voru að mér skilst aðeins send til kvenna á kjörskrá en ekki karla. Í skilaboðunum stóð: „Konur eru 8.699 af nemendum HÍ. Aðeins 3.180 konur kusu síðast. Látum rödd okkar heyrast. Kynnið ykkur frambjóðendur og kjósið á mánudag! Bkv. Guðrún Nordal.“

Ég fagna því að Guðrún hvetji okkur konur til þess að kjósa í komandi kosningum. Best þætti mér þó að hún hvetti alla sem eru kosningabærir til þess að kjósa, bæði konur og karla, sérstaklega í ljósi þess að kosningaþátttaka í heild var aðeins 45,1%. Ég velti því fyrir mér hvort að þetta sé hluti af kosningaherferð. Hvort undirliggjandi skilaboð séu „konur kjósið konu í embættið“, svokallað „konuspil“ eins og ég kýs að kalla það. Sé svo verð ég að lýsa yfir vonbrigðum mínum. Hér er um að ræða kjör í æðsta embætti Háskóla Íslands, menntastofnun sem leggur áherslu á gagnrýna hugsun og málefnaleg rök. Sé minn skilningur á þessum skilaboðum réttur þykir mér miður að verið sé að hvetja til afstöðu á ekki málefnalegri rökum en kyni frambjóðenda. Bæði karlar og konur geta beitt sér fyrir jafnrétti og það er ekki hægt að fullyrða að það að tilheyra ákveðnu kyni geri frambjóðandann að betri rektor.  Hvorki fyrir konur né karla.

Ég vil hvetja alla þá sem eru á kjörskrá til þess að nýta kosningarétt sinn og kjósa mánudaginn 20. apríl næstkomandi  í rektorskjöri við HÍ. Þá vil ég ennfremur hvetja þá hina sömu að taka upplýsta ákvörðun í vali sínu, kynna sér stefnumál beggja frambjóðenda og taka ákvörðun út frá því. Sjálf hef ég ákveðið að styðja Jón Atla Benediktsson.




Skoðun

Sjá meira


×