Viðskipti innlent

Seðlabankastjórum verði fjölgað í þrjá

Stefán Árni Pálsson skrifar
Már Guðmundsson var endurskipaður seðlabankastjóri til fimm ára í ágúst á síðasta ári.
Már Guðmundsson var endurskipaður seðlabankastjóri til fimm ára í ágúst á síðasta ári. mynd/daníel
Nefnd undir stjórn Þráins Eggertssonar hagfræðings telur skynsamlegt að fjölga seðlabankastjórum úr einum í þrjá. Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerði tillögur nefndarinnar opinberar í dag.

Nefndin leggur til að bankastjórn Seðlabankans verði fjölskipuð þar sem seðlabankastjóri er fremstur á meðal jafninga. Í stað núverandi aðstoðarseðlabankastjóra komi tveir bankastjórar sem taka sæti í bankastjórn ásamt seðlabankastjóra sem er formaður bankastjórnar, leiðir starfsemi bankans, er talsmaður hans og kemur fram fyrir hönd bankastjórnar.

Að öðru leyti muni bankastjórn skipta með sér verkum innan bankans, þar með talið hvaða bankastjóri skuli fara sérstaklega með peningamál, hver skuli fara sérstaklega með fjármálastöðugleika og hver skuli vera staðgengill seðlabankastjóra í fjarveru hans.

Nefndin var skipuð í fyrra, hefur skilað fjármála- og efnahagsráðherra áfangaskýrslu en þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Nefndinni var falið það verkefni að skila fjármála- og efnahagsráðherra frumvarpi til nýrra laga um Seðlabanka Íslands. Jafnframt átti nefndin að gaumgæfa þróun á starfsemi annarra seðlabanka og löggjöf á sviði peningamála og efnahagsstjórnunar með það að markmiði að treysta trúverðugleika og sjálfstæði bankans og traust á íslenskum efnahagsmálum. Ennfremur var nefndinni falið að skoða hvort ástæða sé til breytinga á skipulagi fjármálamarkaðar og Fjármálaeftirlitsins í því skyni að efla samstarf og skýra verkaskiptingu milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.

Í nefndinni sitja dr. Þráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, formaður, og dr. Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. Meðfylgjandi er skilabréf nefndarinnar, frumvarpstillögur og lög um Seðlabanka Íslands með innfærðum breytingatillögum nefndarinnar.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun á næstunni fara yfir skýrslu og tillögur nefndarinnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×