Viðskipti innlent

Nortek gerir 350 milljóna samning við tyrkneska skipasmíðastöð

Stefán Árni Pálsson skrifar
Á myndinni má sjá Björgvin Tómasson, framkvæmdastjóra Nortek ásamt 
Huseyin Sanli, verkefnisstjóra hjá tyrknesku skipasmíðastöðinni Cemre Shipyard.
Á myndinni má sjá Björgvin Tómasson, framkvæmdastjóra Nortek ásamt Huseyin Sanli, verkefnisstjóra hjá tyrknesku skipasmíðastöðinni Cemre Shipyard. mynd/aðsend
Öryggistæknifyrirtækið Nortek ehf. frá Akureyri hefur gert samning við tyrknesku skipasmíðastöðina Cemre Shipyard um að setja upp öryggis- og tæknibúnað ásamt fullbúnu gagnaveri í fjögur íslensk skip sem skipasmíðastöðin er að smíða fyrir Samherja Ísland, Útgerðarfélag Akureyrar og Fisk Seafood á Sauðárkróki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Í tilkynningu frá Nortek segir að um sé að ræða stærsta samning sem fyrirtækið hefur gert frá upphafi og nemur verðmæti hans 350 milljónum króna. Samningurinn á að skapa fjölda hátæknistarfa en fyrirtækið mun þurfa að fjölga tæknistörfum í kjölfarið. Nortek hefur lagt áherslu á að bjóða heildarlausnir fyrir sjávarútveginn og hefur sérhæft sig í og verið leiðandi í öryggistækni, sérstaklega í upplýsinga- og vöktunarkerfum fyrir skip.

,,Með samningnum tryggja íslensku útgerðarfyrirtækin sér búnað í hæsta gæðaflokki og þjónustu við hann hér heima en Nortek bæði selur og þjónustar búnaðinn,” segir Guðrún Ýrr Tómasdóttir, stjórnarformaður og markaðsstjóri Nortek.

Verkefnið er  að auka öryggi áhafnar, einfalda og bæta rekstraröryggi skips, samþætta og fækka skjáum í brú, losa brúna við kælibúnað eins og  tölvuviftur og straumgjafaviftur, auka stöðugleika í orkunotkun, öruggara varaafl (UPS), gera gagnaflutning hraðvirkari og traustari, einfalda framsetningu á upplýsingum og einfalda viðhald alls búnaðar um borð. Allur þessi búnaður verður fluttur í gagnaverið sem byggt verður um borð. Nortek fékk Samherja, Brimrúnu,  Nordata, og erlenda framleiðendur til liðs við sig í vöruþróun.

,,Við settum nýja hugsun í brunakerfið, myndeftirlit, varaaflið, viðvörunarkerfið, slökkvikerfið og tölvusalina. Eitt af markmiðunum var að fækka skjánum í brúnni en bæta jafnframt yfirsýn skipsstjórans með öllum kerfum skipsins. Skipstjórinn fær myndir á skjáina sem gera honum kleift að stjórna og velja hagstæðustu og bestu lausnina við rekstur á skipinu, “ segir Guðrún.

Með bættu upplýsingakerfi um borð er hægt að auka hagræðingu í rekstri og byggja upp meiri meðvitund um kostnað. Í vélagæslukerfinu verður til forsíðumynd sem sýnir legu skipsins, halla þess og hversu djúpt það ristir. Olíueyðsla og  raforkunotkun sést í rauntíma ásamt því að hægt er að stjórna siglingaljósum og ljósum á dekki frá myndinni.

Undirmyndir sýna meðal annars olíubyrgðir um borð, raforkuframleiðslu og raforkunotkun svo eitthvað sé nefnt. Þessi búnaður verður án efa til þess að útgerðirnar hagræða með sparnaði í olíu auk þess sem mengun verður minni.

Einnig er haldið utanum allar viðvaranir í skipinu og á einfaldan máta er hægt að draga upplýsingar frá helstu kerfum skipsins til þess að ná niður kostnaði og gera störf skipsstjórnarmanna og vélstjórnarmanna öruggari og þægilegri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×