Viðskipti innlent

Borgarstjóri Birmingham tók á móti fyrsta flugi Icelandair

Stefán Árni Pálsson skrifar
mynd/aðsend
Icelandair hóf í morgun reglulegt áætlunarflug til Birmingham í Englandi. Borgarstjórinn Shafique Shah og Sadia eiginkona hans tók á móti fyrsta fluginu ásamt Paul Kehoe, forstjóra Birminghamflugvallar, við hátíðlega athöfn sem lauk fyrir skömmu. Þeir fluttu þar ávörp ásamt Þórði Ægi Óskarssyni, sendiherra Íslands í Bretlandi og Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair.

Birmingham er fimmti áfangastaður Icelandair í Bretlandi og bætist í hóp London Heathrow, London Gatwick, Manchester og Glasgow. Flogið er tvisvar í viku, á fimmtudögum og mánudögum.

„Það er mjög ánægjulegt að fá svona góðar viðtökur við fluginu og við höfum átt gott samstarf við borgaryfirvöld og flugvöllinn við undirbúning þess”, segir Birkir.

„Birmingham og nágrannaborgir hennar eru stórt markaðssvæði á milli Manchester og London og ferðamenn þaðan nota Birminghamflugvöll mikið. Við gerum ráð fyrir að farþegar á þessari leið verði einkum breskir ferðamenn leið til Íslands, og einnig farþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll milli áfangastaða okkar í Norður-Ameríku annars vegar og Bretlandi hins vegar, og styrkja þannig leiðakerfi Icelandair á Norður-Atlantshafinu. Birmingham hefur einnig upp fjölmargt að bjóða fyrir íslenska ferðamenn”, segir hann.

Icelandair flýgur á þessu ári til 39 áfangastaða, 25 í Evrópu og 14 í Norður Ameríku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×