Viðskipti innlent

Veruleg hækkun fasteignaverðs

Stefán Árni Pálsson skrifar
Verðbólga hefur verið mjög lítil á árinu og því hefur raunverð fasteigna hækkað umtalsvert.
Verðbólga hefur verið mjög lítil á árinu og því hefur raunverð fasteigna hækkað umtalsvert. Vísir/Vilhelm
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði verulega í desember eða um 2%, þar af hækkaði fjölbýli um 1,1% og sérbýli um 5%. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Verðhækkanir á árinu 2014 voru miklar. Í heild hækkaði fasteignaverð um 8,5% frá fyrra ári, þar af hækkaði fjölbýli um 9,8% og sérbýli um 4,6%. Þetta eru mestu verðhækkanir milli ára sem sést hafa frá árinu 2007.

Í þjóðhagsspá hagfræðideildar Landsbankans frá því í nóvember var því spáð að fasteignaverð myndi hækka um 8,5% á árinu 2014 þannig að sú spá hefur gengið vel eftir. Hagfræðideildin spáir 9,5% hækkun á þessu ári, 6,5% 2016 og 6,2% á árinu 2017.

Verðbólga hefur verið mjög lítil á árinu og því hefur raunverð fasteigna hækkað umtalsvert. Raunverð alls húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 8% milli áranna 2013 og 2014.

Í grein Landsbankans segir að mikil hækkun fasteignaverðs hafi jákvæð áhrif á efnahagsreikning heimilanna. Frá 2010 til 2013 hefur eigið fé heimila í fasteign hækkað um 51% að nafnvirði og um 33% að raunvirði. Það er athyglisvert að skoða þessa þróun í samhengi við þær almennu skuldaniðurfærslur sem fara fram þessa dagana.

Ætla má að fasteignamat 2016 hækki töluvert þegar tölur um það verða birtar um mitt ár og verði verðbólga ennþá lág verða áhrifin á efnahagsreikning heimilanna áfram jákvæð. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×