Viðskipti innlent

Innflutningstollar dýru verði keyptir

Linda Blöndal skrifar
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda
Innfluttar búvörur hafa hækkað um allt að þriðjung á milli ára vegna lítilla kvóta til innflutnings og allt að fimmtungi meiri eftirspurn. Ríkið eykur tekjur sínar vegna þessa um tugi milljóna á ári. Félag atvinnurekenda segir ríkið taka til sín ólögmætar skatttekjur. 

Viðræður við ESB hefjast í næsta mánuði um meiri fríverslun á búvörum og hefur Félag atvinnurekenda borið saman hvernig útboð á tollfrjálsum innflutningskvóta á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu kom út fyrir árin 2014 og 2015.

Félagið bendir á að eftirspurn fyrirtækja eftir tollkvóta fari hraðvaxandi og þau bjóði því sífellt hærra verð í kvótann til að tryggja sér hluta af honum.  Eftirspurninni á milli ára eykst um allt að 86 prósent.  Um er að ræða ýmis konar erlent kjöt og osta sem fæst ekki hérlendis er ber þó toll.

Margföld eftirspurn eftir tollkvótum

Á stundum er eftirspurn fyrirtækja fjórum, jafnvel fimm sinnum meira en það magn sem í boði er árlega.  Verðið sem borgað er fyrir kvótann af tiltekinni vöru hækkar í sumum tilfellum um 20 til 30 prósent. Kvótarnir áttu að auka samkeppni á búvörumarkaði og vera tollfrjálsir er niðurstaðan er önnur.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að pínulitir kvótar séu í boði ár hvert. Til að mynda sé verið að flytja inn 200 tonn af alifuglakjöti á meðan framleiðslan sé 8000 tonn innanlands miðað við tölur árið 2013.

Ávinningur neytenda úr sögunni

„Þetta er agnarlítið hlutfall og eftirspurnin er orðin svo mikil eftir þessum tollkvóta, af því að vörurnar eru svo vinsælar og neytendur vilja innflutta búvöru, að fyrirtækin neyðast til að bjóða hærra og hærra í kvótana til að tryggja sér þá, að þá er kostnaðurinn við að flytja inn á kvótanum orðin sambærilegur og þegar menn flytja inn á þessum allt of háu almennu verndartollum. Þar með er ávinningur neytenda úr sögunni,“ sagði Ólafur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Atvinnurekendur benda á að gjaldtaka ríkisins vegna tollkvótanna megi ætla að sé vel yfir 300 milljónir króna á þessu ári sem sé þá það sem neytendur tapi. „Það er bara ríkissjóður sem hagnast. þetta er í raun aukaskattur sem við teljum að sé ólögmætur. Þetta er skattur sem átti að vera skattfrjáls,“ sagði Ólafur.

Tregða íslenskra stjórnvalda

„Möguleikarnir eru þeir að íslensk stjórnvöld hafa lagt á það megináherslu að fá aukið tollfrelsi inn á Evrópumarkaðinn fyrir íslenskt skyr og lambakjöt sérstaklega. Þá gerir Evrópusambandið væntanlega einhverjar kröfur í staðinn. En það hefur verið mikil tregða hjá íslenskum stjórnvöldum að mæta slíkum kröfum en ef þau ætla að fá sitt í gegn þá verða þau væntanlega að gefa eitthvað eftir,“ sagði Ólafur og ennfremur að stjórnvöld mættu hafa í huga að þetta sé stórt hagsmunamál fyrir neytendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×