Viðskipti innlent

Staða Íslands án fordæma í heiminum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Haftaástandið sem íslensk stjórnvöld glíma við er algjörlega án fordæma í heiminum.

Einu ríkin sem hafa tekið upp útgönguskatt á fjármagnsflutninga, sambærilegum þeim sem nú er til skoðunar hér á landi, eru Malasía og Hvíta Rússland. Ef útgönguskatturinn verður 20 prósent mun hann skila ríkissjóði að minnsta kosti 500 milljörðum króna.

Skipaður hefur verið nýr hópur sem á hrinda í framkvæmd tillögum um afnám gjaldeyrishafta en í hópnum eru Sigurður Hannesson stærðfræðingur og framkvæmdastjóri eignastýringar MP banka og Benedikt Gíslason. Það var DV sem greindi frá þessu. 

Mun starfa við hlið framkvæmdastjórnarinnar

Hópurinn á að starfa við hlið framkvæmdastjórnar um afnám hafta sem Bandaríkjamaðurinn Glenn Victor Kim leiðir.

Meðal þess sem framkvæmdastjórn um afnám hafta hefur lagt til að verði skoðað er sérstök skattlagnging á fjármagnsflutninga, útgönguskattur, og hefur verið rætt um að hann geti verið á bilinu 20-35 prósent. Skatturinn næði til alls fjár innan gjaldeyrishafta en um er að ræða sérstakan skatt á allar eignir sem vildu fara út fyrir höft. Það þýðir að skatturinn myndi leggjast á bæði innlendar og erlendar eignir slitabúa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.

Ef hann verður 20 prósent þá gæti skatturinn frá slitabúum föllnu bankanna skilað ríkissjóði rúmlega 500 milljörðum króna sé miðað við heildareignir slitabúanna en þær nema 2.600 milljörðum króna.

Tilgangurinn með útgönguskattinum er tvíþættur. Annars vegar losun fjármagns sem er fast innan hafta án þess að ógna greiðslujöfnuði landsins og hins vegar tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Ísland öfganna á milli

Stundum er rætt um það hafi tekið of langan tíma að vinda ofan af höftunum. Það er mikilvægt að hafa hugfast að ekki eru til fordæmi fyrir þeirri stöðu sem Ísland er í. Ekkert annað ríki hefur haft algjörlega frjálsa fjármagnsflutninga, fengið mikið innflæði fjár, komið á gjaldeyrishöftum og svo afnumið þau. Öll fordæmi sem eru þekkt eru frá ríkjum þar sem gjaldeyrishöft í einhverri mynd voru fyrir hendi fyrir og þau síðan hert.

Árin 2006-2008 fékk Ísland mikla erlenda fjárfestingu í formi innistæðna. Mörg lönd sem vilja verja sig fyrir skammtíðaflæði fjár taka upp höft af einhverju tagi, þetta var hins vegar ekki gert á Íslandi í góðærinu. Það er auðvelt að vera vitur eftir á en það er auðvitað óvenjulegt að ríki með einn minnsta gjaldmiðil í heimi hafi ekki haft neinar takmarkanir á innflæði fjár fyrir bankahrunið.

Á Kýpur voru fyrir hendi höft áður en Kýpverjar tóku upp evruna. Í kjölfar upptöku evru og frjálsra fjármagnsflutninga varð mikið innflæði fjár á Kýpur. Á árinu 2013 komu þeir á gjaldeyrishöftum til að verjast áhlaupi á bankana. Þeim var síðan lyft sextán mánuðum síðar.

Tvö ríki hafa tekið upp útgönguskatt sambærilegan þeim sem nú er til skoðunar á Íslandi. Annars vegar Hvíta Rússland og hins vegar Malasía. Þá settu Kýpverjar skatt á úttekt innistæðna árið 2013. Það skiptir máli hvert markmiðið með skattlagningunni er þegar verið er að útfæra skattinn.

Útgönguskatturinn í Hvíta Rússlandi var 30 prósent en markmið hans var í raun bara að stöðva alla fjármagnsflutninga. Sama skattfjárhæð var í Malasíu. Kýpverjar settu hins vegar 48 prósent skatta á allar innistæður yfir 100 þúsund evrum.

Að framansögðu virtu er vandasamt að útfæra þennan skatt þannig að hann hafi tilætluð áhrif. Markmiðið með skattlagningunni væri augljóslega ekki að festa fé slitabúanna hér heldur losa um það, með það fyrir augum að vinda ofan af gjaldeyrishöftunum.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að setja á útgönguskatt eða hversu hár hann verður. Þá hefur ekkert frumvarp um skattinn verið unnið og slíkt frumvarp verður aðeins lagt fram og skattinum komið á ef greiðslujöfnuður (e. balance of payments) Íslands krefst þess, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

Heimildarmenn fréttastofu segja boltann núa hjá slitastjórnum föllnu bankanna. Það sé undir þeim komið að koma með tillögur að nauðasamningum þessara banka sem ógna ekki greiðslujöfnuði landsins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×