Viðskipti innlent

WOW air fjölgar flugferðum til Bandaríkjanna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gert er ráð fyrir 60% aukningu á farþegum WOW air milli ára.
Gert er ráð fyrir 60% aukningu á farþegum WOW air milli ára.
Vegna mikillar eftirspurnar hefur flugfélagið WOW air ákveðið að auka við flugframboð sitt til Bandaríkjanna en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Núna verður flogið allan ársins hring bæði til Washington, D.C. og Boston en í fyrri áætlun var ráðgert að fljúga eingöngu til Washington D.C. frá byrjun júní til loka október. Einnig verður flogið oftar í viku frá og með 4. júní til bæði Washington D.C og Boston.  Flogið verður fimm sinnum í viku til Washington, D.C. og sex sinnum í viku til Boston.

Flug til Washington, D.C. átti að hefjast 4. júní en ákveðið hefur verið að flýta því og mun fyrsta flug WOW air til þessarar höfuðborgar Bandaríkjanna verða 8. maí.

Jómfrúarflug WOW air til Bandaríkjanna verður til Boston 27. mars og hefst þá um leið áætlunarflug þangað.

„Þær móttökur sem við höfum fengið frá því við hófum sölu á flugi til Bandaríkjanna hafa verið framar björtustu vonum. Sala beggja vegna Atlantshafsins sem og á Íslandi hefur gengið afar vel og því ákváðum við að auka við framboðið og fljúga allan ársins hring einnig til Washington, D.C. Við erum líka stolt af því að hafa lækkað flugverð til muna til Bandaríkjanna og eflt um leið heilbrigða samkeppni í flugi til og frá Íslandi“  segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.

Gert er ráð fyrir 60% aukningu á farþegum WOW air milli ára frá 497.595 farþegum árið 2014 í um 800.000 farþega núna í ár, 2015.

WOW air mun frá næsta vori fljúga til tuttugu áfangastaða bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Auk Boston og Washington, D.C. bættust einnig nýlega við fjórir nýjir áfangastaðir í Evrópu; Dublin, Róm, Billund og Tenerife.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×