Gagnrýni

Ævintýralega skemmtileg Öræfaferð

Jón Yngvi Jóhannsson skrifar
Öræfi
Öræfi
Bækur:

Öræfi

Ófeigur Sigurðsson

Mál og menningNýjasta skáldsaga Ófeigs Sigurðssonar, Öræfi, er einföld ferðasaga. Hún lýsir ferð ungs Austurríkismanns, Bernharðar að nafni, frá heimaborg sinni Vín til Íslands á vit draumalandsins sem reynist vera Öræfasveit. Bernharður hefur heillast af íslenskri náttúru og menningu, og sameiningu menningar og náttúru í örnefnafræðinni. Tengsl hans við landið reynast þó flóknari en flestra þeirra Íslandsáhugamanna sem koma til landsins með glýju í augum yfir stórfengleika menningar og sögu.Ferðasaga Bernharðar endar – eins og lesandi kemst að í upphafi sögu – með ósköpum, ferð hans á Vatnajökul verður honum ofviða þrátt fyrir vandlegan undirbúning og útbúnað sem er í meira lagi fjölbreyttur og frumlegur. Það sem eftir stendur er frásögn hans af eigin ævintýrum, miðlað í gegnum nokkra milliliði sem stundum taka af honum völdin. Þar fer fremst í flokki dýralæknirinn og boldangskvenmaðurinn dr. Lassi, en einnig taka til máls barflugan Fastagestur og sá sem kallar sig höfund bókarinnar en hann er langt frá því að vera allur þar sem hann er séður.

Ófeigur Sigurðsson „Stílfimi Ófeigs er með ólíkindum og hann dregur lesandann út í einkennilegustu ferðalög,“ segir Jón Yngvi. Vísir/Stefán
Sögu Bernharðar fáum við lesendur uppfulla af útúrdúrum og ólíkindalátum, sjálfur týnist hann oft og iðulega í orðaflaumi milliliðanna um Öræfin, sögu svæðisins, náttúru þess, Öræfinga lífs og liðna og sérkenni þeirra. Sagan af örnefnafræðingnum seinheppna verður uppspretta alls kyns frásagna, ritgerða og orðræðna. Fyrirmyndirnar eru sóttar víða að, þjóðlegur fróðleikur og sagnaþættir, skrif náttúrufræðinga og annálaritara og fleiri misþekkt rit hafa orðið Ófeigi innblástur – að ógleymdum Benedikt Gröndal en oft og tíðum er eins og höfundur Heljarslóðarorrustu tali í gegnum persónur sögunnar og skrásetjara. Þessi blanda er rammgöldrótt. Á köflum er algerlega ævintýralegt að lesa Öræfi. Stílfimi Ófeigs er með ólíkindum og hann dregur lesandann út í einkennilegustu ferðalög um íslenska sögu, náttúru og menningu.Á stundum finnst manni eins og stílgaldurinn sé nóg í sjálfu sér, að bókin þurfi ekki aðra kosti en þann að skemmta lesandanum á öllum sviðum tungunnar. En undir lok sögu dregur til tíðinda og þá kemur líka í ljós að þótt Öræfi sé með skemmtilegustu bókum þá býr undir rammasta alvara. Þegar sagan snýst upp í dómsdagsspá með náttúruhamförum og nýrri veröld sem rís úr eyðingunni verður lesandanum ljóst að höfundurinn á við hann erindi. Öræfi fjallar um mörg af brýnustu málum samtímans: umgengni okkar við náttúru og menningararf, samskipti okkar við og meðferð á öðrum dýrategundum og fleiri skyld mál. Sagan spyr líka ögrandi spurninga um tækni og framfarir og setur margvísleg spurningamerki við nútímavæðinguna. Sá fornlegi bragur sem er stundum á stílnum er engin tilviljun, hér gengur allt upp í magnaðri úttekt á nútímanum með tungutak fortíðarinnar að vopni. Niðurstaða: Ævintýralega skemmtileg skáldsaga með djúpum og áríðandi undirtónum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×