Viðskipti innlent

Miklar sveiflur í afkomu Icelandair Group

Haraldur Guðmundsson skrifar
Björgólfur Jóhannsson segir félagið hafa staðið í miklum framkvæmdum við hótel samstæðunnar og að viðsnúningur hafi orðið í rekstri Icelandair Cargo.
Björgólfur Jóhannsson segir félagið hafa staðið í miklum framkvæmdum við hótel samstæðunnar og að viðsnúningur hafi orðið í rekstri Icelandair Cargo. Vísir/GVA
„Við reiknum með að afkoman á fjórða ársfjórðungi verði talsvert lakari en hún var á sama fjórðungi í fyrra og að EBITDA, hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, verði neikvæð,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.

Fyrirtækið hagnaðist um 85,8 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 10,5 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi og sló þá ársgamalt afkomumet samstæðunnar. Hún var rekin með 26,7 milljóna dala, um 3,3 milljarða króna, tapi á fyrstu þremur mánuðum ársins en með hagnaði að jafnvirði 2,6 milljarða króna á tímabilinu frá apríl til júníloka. Árstíðabundnar sveiflur halda því áfram að setja mark sitt á afkomu fyrirtækisins sem hyggur á frekari landvinninga á næsta ári.

Besti fjórðungurinn

Tímabilið frá byrjun júlí til septemberloka er vanalega ykkar mikilvægasti fjórðungur. Hvað skýrir afkomumetið sem þið kynntuð í síðustu viku?

„Þetta er jú mikilvægasti fjórðungurinn okkar og sá tími ársins þegar við erum með langmestu tekjurnar. Við teljum að orsaka sé að leita í þeirri auknu þjónustu sem Icelandair veitir, sem fjölgar farþegum og ferðamönnum, en einnig hafa önnur dótturfélög okkar verið að njóta góðs af fjölgun ferðamanna. Einnig höfum við lagt aukna áherslu á vetur, vor og haust og þar með aukið vægi þessara árstíða í afkomu fyrirtækisins,“ segir Björgólfur.

Hann segir fjárhagsstöðu samstæðunnar hafa styrkst, skuldir hafi meðal annars lækkað og því sé fyrirtækið vel undirbúið undir þær fjárfestingar sem séu fram undan.

„Það er töluvert af fjárfestingum fram undan í nýjum flugvélum og styrkingu innviða ferðaþjónustunnar í landinu með opnun hótelbygginga í eigu Icelandair Group.“

Björgólfur tekur fram að kaup fyrirtækisins á nýjum flugvélum hafi verið kynnt í fyrra þegar Icelandair undirritaði samning um kaup á sextán Boeing 737 MAX-vélum.

„Við horfum til þess að þær verði notaðar í leiðakerfinu og höfum sagt að það styrki Icelandair að fá smærri vélar og gefi fyrirtækinu meðal annars aukinn sveigjanleika til að takast á við minni áfangastaði.“

Þið hafið bætt við áfangastöðum og fjölgað ferðum. Eru þessar breytingar að skila viðunandi árangri?

„Þessar nýju leiðir hafa reynst vel. Síðan bætast við tvær á næsta ári en reyndar tökum við St. Pétursborg út. Ný leið styrkir kerfið í heild sinni en auðvitað verðum við að horfa til þess að þær gangi líka fjárhagslega og þær hafa verið að gera það,“ segir Björgólfur.

Hærri laun og aukin samkeppni

Þú segir að fjórði ársfjórðungur verði fyrirtækinu að öllum líkindum erfiður. Hvað spilar þar helst inn í fyrir utan mögulegan samdrátt í tekjum?

„Í fyrsta lagi er auðvitað hærri launakostnaður því laun hafa hækkað. Síðan er aukin samkeppni. Við erum reyndar með mjög mikla samkeppni á sumrin, en þegar ég er að tala um samkeppni þá er ég auðvitað ekki einungis að að tala um ferðir til og frá Íslandi. Ég er að tala um þessa stóru mynd yfir Norður-Atlantshafið þar sem við erum að horfa á mjög stór félög eins og Lufthansa, British Airways, Norwegian og SAS sem eru að fljúga þar yfir. Við höfum séð aukna samkeppni þar og auðvitað líka á heimamarkaðinum.“

Hvernig ætlið þið að bregðast við þessari auknu samkeppni?

„Við ætlum að gera það sem við erum best í og bregðast við þeim aðstæðum sem upp koma. Þar skiptir þjónustan mestu máli sem kemur meðal annars fram í aukinni tíðni á áfangastaði og meiri dreifingu í áætlanakerfinu í heild sinni.“

Má gera ráð fyrir að aukinni samkeppni verði mætt með lækkun fargjalda?

„Auðvitað er verð hjá félögum sem stunda flug mjög breytilegt frá einum tíma til annars. En við erum ekki að fara að breyta okkar stefnu á neinn hátt. Styrkur okkar liggur auðvitað í því hvað við erum dreifð í báðum heimsálfum og getum boðið, með einni millilendingu, flug yfir Norður-Atlantshafið. En þetta snýst líka um þægindi og þjónustu og við horfum á hvað markaðurinn er að gera og þurfum að sjálfsögðu að bregðast við í ljósi aðstæðna á hverjum tíma,“ segir Björgólfur.

Blæs á ásakanir um einokun

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, sagði í viðtali í Markaðinum í september síðastliðnum að einokunarstaða ríki í Norður-Ameríkuflugi. Wow hefur gagnrýnt úthlutun Isavia á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli, eða stæðum, og sagt Icelandair hafa fengið þá tíma sem séu nauðsynlegir fyrir tengiflug milli Evrópu og Bandaríkjanna. Málið hefur nú ratað alla leið til EFTA-dómstólsins sem mun á næstunni kveða upp sinn úrskurð vegna afgreiðslutíma í Keflavík.

„Þó það sé talað um það í orðræðunni að það sé ekki samkeppni til Norður-Ameríku þá er það auðvitað bara rangt. Við erum auðvitað í mjög mikilli samkeppni við stór erlend flugfélög á þessari leið. Delta hefur svo verið að fljúga á milli Íslands og New York þannig að það hefur ekki heldur verið einokun þar,“ segir Björgólfur og heldur áfram:

„Hins vegar er til eitthvað sem heitir hefðarréttur og við höfum 30 ára reynslu af þessum tengibanka í Keflavík. Ég hef aldrei skilið af hverju flugfélag sem ætlar að hefja flug til Ameríku þarf að fara inn á nákvæmlega sömu tímasetningar og fyrirtæki sem er fyrir þegar völlurinn býður upp á takmarkað pláss. Enda hefur komið í ljós að viðkomandi félag, sem kvartaði, ætlar að fljúga á öðrum tíma og hefur tilkynnt að sá tími sé betri en sá sem það var að sækjast eftir.“

Félagið þoli vöxtinn

Leiðakerfi fyrirtækisins hefur tvöfaldast frá árinu 2009. Þið spáið því að farþegar ykkar verði um 2,9 milljónir á næsta ári og fjölgi þá um 300 þúsund milli ára. Eruð þið ekki að stækka of hratt?

„Það er nú góð spurning. Við höfum nú verið að stækka meira en þetta undanfarin ár enda hefur stærð félagsins tvöfaldast. En Icelandair er auðvitað bara einn angi af því og hryggjarstykkið í samstæðunni. Hins vegar þurfa menn auðvitað að passa sig á því að vaxa ekki of hratt. En ég tel að okkur hafi tekist að vaxa þannig að félagið þoli það innan frá en tek það fram að menn þurfa oft að vanda sig mjög vel í slíkum vexti, hvort sem um er að ræða þjónustu sem Icelandair er að bjóða eða hótelin okkar.“

Verkfallsaðgerðir flugmanna höfðu bein áhrif á afkomu fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi. Tímabundinn samningur ykkar við flugmenn rann út í lok september. Áttu von á að samningar náist á næstunni?

„Já ég hef fulla trú á því að við náum að semja. Það er rétt að við vorum í verulega erfiðri baráttu við ákveðnar stéttir innan félagsins. Það voru verkfallshótanir og það kom til verkfalls hjá okkur. Því miður var samningurinn við flugmenn stuttur. Við erum nú að vinna í nýjum samningi,“ segir Björgólfur og tekur fram að kröfur flugmanna séu enn miklar.

„Eins og ég hef sagt þá þurfum við að ná að tengja betur hagsmuni starfsmanna og félagsins, svona í ljósi þess sem var að gerast í vor, þannig að góður hagur félags skili sér til starfsmanna, og við munum vinna í því.“

Óttastu ekki að þessi 10,4 milljarða hagnaður sem þið voruð að kynna veiki samningsstöðu ykkar?

„Það getur vel verið að hann geri það í núinu. En þetta er auðvitað tvíbent sverð. Ég hef auðvitað áhyggjur gagnvart starfsfólki okkar ef það fer að ganga verr. Það er ekkert svo langt síðan við vorum í þeirri stöðu mánaðamótin maí-júní 2008 þegar við sögðum upp 600 manns hjá félaginu þar sem við sáum að það var ákveðin hnignun í gangi. Ef menn ætla sér að ná hærri launum við góða afkomu verða þau væntanlega lægri við lélega afkomu.“

Eru teikn á lofti um að þið séu að fara inn í verri tíma?

„Nei, nei, langt því frá. Auðvitað hefur maður þó áhyggjur af Íslandi, kjarasamningar eru lausir og það virðist vera ákveðin ólga í þeim efnum. Ég sé hins vegar aukin tækifæri hvað varðar Ísland sem ferðaþjónustuland og held að við eigum mikið inni þar sama hvað einhverjir aðrir segja.“

Höfuðstöðvamálin í skoðun

Icelandair hefur byggt nýtt þjálfunarsetur í Vallahverfinu í Hafnarfirði undir flughermi þar sem flugmenn á Boeing 757 verða þjálfaðir. Fyrirtækið ætlar einnig að reisa þar skrifstofuhúsnæði og Björgólfur segir þau áform vera á áætlun.

„Núna erum við að fara að byggja þjálfunarsetrið í annarri byggingu og síðar koma skrifstofur í kjölfarið. Það hefur hins vegar ekki verið tekin nein ákvörðun um að færa höfuðstöðvar fyrirtækisins þangað. En við eigum þarna tækifæri til þess, lóðin ber það, og það skiptir máli hvað gerist hérna í Vatnsmýrinni. En þetta er í skoðun og er opið eins og allt annað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×