Innlent

Störf hjá ríkinu 10 prósent færri

Freyr Bjarnason skrifar
Formaður BSRB segir að fullyrðingar Viðskiptaráðs standist ekki.
Formaður BSRB segir að fullyrðingar Viðskiptaráðs standist ekki. Fréttablaðið/Stefán
Störfum hjá ríkinu hefur fækkað um 10,6 prósent frá árinu 2008. Ef litið er aftur til aldamóta hefur starfsmönnum ríkisins fjölgað um 5,6 prósent frá árinu 2000 en fjöldi starfa á vinnumarkaðnum öllum hefur aukist um 11,8 prósent.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá BSRB sem er byggð á upplýsingum frá Hagstofunni og Fjármálaráðuneytinu.

Upplýsingarnar stangast á við fullyrðingar Viðskiptaráðs sem nýverið efndi til fundar um stöðu og horfur í ríkisfjármálum. Þar kom fram að ríkisstarfsmönnum hefði fjölgað um 29 prósent frá aldamótum. Einnig var tekið fram að aðhaldsaðgerðir síðustu ára hefðu ekki fækkað starfsmönnum ríkisins frá 2008 til 2014 um nema þrjú prósent.

„Samkvæmt okkar upplýsingum stenst ekki það sem Viðskiptaráð hélt fram. Hagfræðingur bandalagsins fór að kafa ofan í þessar tölur og það er ljóst að þær standast ekki. Þess vegna erum við að senda frá okkur þessar upplýsingar sem við teljum vera sannar og réttar,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

„Þegar fullyrðingar Viðskiptaráðs komu fram komu þær mér algerlega í opna skjöldu. Sérstaklega frá 2008 höfum við orðið sífellt meira vör við að fólki hefur verið sagt upp og starfsmönnum fækkað,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×