Viðskipti innlent

Verðmæti Össurar hefur aukist um 67 milljarða króna á tólf mánuðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Níels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar, og Jón Sigurðsson forstjóri bera saman bækur sínar á aðalfundi félagsins.
Níels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar, og Jón Sigurðsson forstjóri bera saman bækur sínar á aðalfundi félagsins. fréttablaðið/Pjetur
Þróun hlutabréfaverðs í stærstu þremur félögunum sem skráð eru á Aðallista Kauphallar Íslands hefur verið gerólík undanfarna tólf mánuði. Össur er langstærsta félagið, en heildarmarkaðsvirði þess er um 146 milljarðar íslenskra króna. Gengi bréfa í félaginu hefur hækkað hratt og örugglega frá sumrinu 2013 eftir mikla hagræðingu í rekstri. Næststærst er Icelandair Group og er markaðsvirði þess um 90 milljarðar króna. Marel er svo þriðja stærsta félagið og er markaðsvirði þess um 74 milljarðar.

Marel

Gengi Marels hefur fallið nokkuð undanfarið ár, var 131 króna á hlut í byrjun september í fyrra en er um þessar mundir í kringum 100. Lækkunin er um 24%. Ástæðan er rakin til þess að félagið hefur birt röð uppgjöra sem hafa valdið fjárfestum vonbrigðum. Tekið var í taumana undir lok síðasta árs og var Árni Oddur Þórðarson, sem á stóran hlut í Marel í gegnum félagið Eyri Invest, ráðinn forstjóri félagsins í stað Hollendingsins Theo Hoen. Í afkomutilkynningum frá félaginu hefur Árni Oddur sagt að verið sé að umbreyta félaginu sem muni hafa kostnað í för með sér. 

Jóhann Viðar Ívarsson, hlutabréfagreinandi hjá IFS greiningu, segir að arðsemi Marels hafi frá og með árinu 2012 verið umtalsvert undir markmiðum. „Þeir voru framan af með markmið um 10-12 prósent hlutfall EBIT af tekjum. Það var bil sem þeir náðu á árinu 2010 og næstum því árið 2011. Árið 2012 var þessi mælikvarði arðsemi 8,6% og í fyrra var hann kominn niður í 6,5%. Það sem af er ári 2014 er arðsemin mjög lág en þess ber einnig að gæta að talsverður kostnaður hefur fallið til á tímabilinu vegna umbreytinga,“ segir Jóhann Viðar. 

Hann segir að fyrirtækið sé þó að mörgu leyti áhugaverður fjárfestingakostur. „Þeir eru alþjóðlegt tæknifyrirtæki og eru nánast einungis með erlendar tekjur sem þykir kostur í höftum í dag,“ segir Jóhann Viðar. Þetta þyki eftirsóknarvert þegar fjárfestar geti ekki farið beint í erlendar fjárfestingar vegna fjármagnshaftanna. „Þannig að þetta er gengisvörn og þar með verðbólguvörn að fara inn í erlent tekjuflæði,“ segir hann. 

Marel sé líka áhugaverður fjárfestingakostur vegna grunnhugmyndafræði í rekstrinum. Félagið framleiði búnað til að vinna dýraprótein. Fari svo fram sem horfi að millistéttarfólki og vel stæðu fólki í þróunarríkjum muni fjölga þá muni neysla þar á kjöti og fiski aukast til lengri tíma. „Og þá munu viðskipti aðila eins og Marels aukast til lengri tíma. Málið fyrir Marel sé bara að fá hlutdeild í aukningunni,“ segir hann. Því séu líkur á að góð ytri skilyrði muni skapast fyrir tekjuvöxt hjá Marel.

Icelandair Group

Gengi bréfa í Icelandair Group var um 14,6 á hlut snemma í september á síðasta ári og fór alla leið upp í 19,7 í byrjun febrúar þessa árs. Frá þeim tíma hefur félagið lækkað lítillega og er nú rétt um 18,1. Hækkunin á tólf mánaða tímabili nemur tæpum 24%. Þótt félagið hafi skilað mjög viðunandi afkomu væri synd að segja að stjórnendur hafi siglt lygnan sjó allt árið. Vinnudeilur hafa valdið félaginu óvissu og eru sérfræðingar sem Fréttablaðið hefur talað við sammála um að gengi bréfa hefði hækkað enn meira ef ekki hefði komið til þeirra. Í hálfsárs uppgjöri félagsins kom fram að vegna kjaradeilna þurfti að fella niður 157 flugferðir og breyta bókunum yfir 22 þúsund farþega. Tekjutap og beinn kostnaður Icelandair Group vegna þessa nam um 3,5 milljónum Bandaríkjadala sem jafngildir um 400 milljónum íslenskra króna. Ekki sér fyrir endann á vinnudeilum því samningar voru gerðir til skamms tíma. Flugmenn sömdu til loka þessa mánaðar og flugfreyjur sömdu til loka ágúst 2015. Þá er líka hugsanlegt að fréttir af eldgosinu í Bárðarbungu hafi haft áhrif á hlutabréfaverð, í það minnsta til skamms tíma. 

Tekjur félagsins hafa á undanförnum misserum aukist með meira framboði af flugsætum bæði á nýjum og eldri leiðum, aukinni sætanýtingu og vaxandi ferðaþjónustu á Íslandi. En mestu máli hefur þó skipt að félagið hefur nýtt sér tækifæri í flugi á milli Norður-Ameríku og Evrópu. „Stærsta breytan hefur legið í vexti hjá þeim í Atlantshafsflugi, frá Evrópu til Bandaríkjanna og öfugt, þar sem er millilent á Íslandi. Þetta er stærsti tekjupósturinn hjá þeim og þar sem þeir eiga mikið undir. Túristarnir sem koma til Íslands og Íslendingarnir sem skreppa út í heim eru ekki jafn stórir póstar,“ segir Jóhann Viðar. Hann segir að svo virðist vera sem Icelandair Group hafi unnið mikið verk í að finna borgir í Bandaríkjunum sem eru tiltölulega stórar en samt ekki það stórar að þeim sé nú þegar þjónað vel af stærri flugfélögunum í flugi til Evrópu. „Þannig að þeir eru ekkert að breiða meira úr sér í New York eða Boston,“ segir Jóhann, þeir fljúgi þá frekar til borga á borð við Denver, Edmonton og Vancouver.

Össur

Gengi bréfa í Össuri hefur hækkað um um 84% á einu ári. Það var 174 krónur á hlut í september í fyrra en er nú 321. Þessi hækkun er rakin til þess að fyrirtækið hafi farið í umbreytingarferli sem hafi skilað auknum hagnaði, batamerkja á bandaríska markaðnum fyrir stoðtæki og skynsamlegra kaupa á öðrum félögum. Í árshlutauppgjöri fyrir annan ársfjórðung kemur fram að hagnaður félagsins jókst um 106% milli ára. Hagnaðurinn nam 17 milljónum Bandaríkjadala, eða um tveimur milljörðum króna, á öðrum fjórðungi þessa árs, samanborið við 8 milljónir dala, um 940 milljónir króna, á öðrum fjórðungi ársins 2013. Söluvöxtur var 23 prósent á fjórðungnum. Að miklu leyti eru þetta áhrif nýkeyptra félaga sem ekki voru inni í samstæðuuppgjöri í fyrra en innri vöxtur er einnig aftur orðinn ágætur.

Jóhann Viðar segir að helstu markaðir Össurar séu Evrópa og Bandaríkin. Það sé ekki langt síðan Össur lenti í hremmingum vegna erfiðleika í sölu stoðtækja í Bandaríkjunum. 

Stjórnendur hafi brugðist við þessu og hagrætt myndarlega í rekstrinum. Þetta hafi þeir gert með því meðal annars að segja upp stjórnendum og flytja framleiðslu til. „Sérstaklega hafa þeir gert góða hluti með því að flytja mikið af stoðtækjaframleiðslunni til Mexíkó. Þeir hafa verið að ná fram lægri framleiðslukostnaði þar,“ segir Jóhann Viðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×