Lífið

Hænur í höfuðborginni

Ugla Egilsdóttir skrifar
Emil Adrian Devaney.
Emil Adrian Devaney. Mynd/Vilhelm Gunnarsson.
Sveitarómantíkin breiðir úr sér á höfuðborgarsvæðinu, en þar færist húsdýrahald í aukana. Fréttablaðið tók viðtal við þrjá Reykvíkinga sem halda hænur.



Fékk hænur í afmælisgjöf

Emil Adrian Devaney, íbúi í 101

„Ég sá fyndin hænumyndbönd á YouTube. Þá hugsaði ég með sjálfum mér: „Mig langar í hænur,“ svo ég bað mömmu um hænur í afmælisgjöf, sem ég fékk.

Fyrst fékk ég tvær hænur. Svo kvörtuðu nágrannar yfir hávaða, og þá kom í ljós að önnur hænan var hani, og ég þurfti að skila honum. Þá var ég leiður, því mér þótti vænt um hann. Þá fékk ég aðra hænu, sem ég nefndi Karamellu, því hún minnir mig dálítið á karamellu og ég var að borða karamellu þegar ég fékk hana. Hin hænan heitir Kolbrún. Þær verpa daglega, líka yfir vetrartímann. Þær eru í kofa úti í garði. Við gefum þeim afganga og hugsum vel um þær. Það er hitapera í kofanum sem við kveikjum á, því stundum getur orðið kalt yfir veturinn, og þá kveikjum við á henni.

Ég á líka hamstur og tvo ketti. Í fyrra átti ég fiska en fiskabúrið sprakk, og við þurftum að gefa alla fiskana.“

Dögg Hjaltalín og hænur frá vinstri Dögg, Agnes Hjaltalín Andradóttir og Freyja Hjaltalín Ólafsdóttir. Mynd/Pjetur Sigurðsson.
Verpa einu eggi á dag

Dögg Hjaltalín, íbúi í 101

„Hænurnar hafa sloppið, en þær fara ekki langt. Nágranni okkar lét okkur vita einn morguninn að ein hænan væri úti í runna en þrátt fyrir ítrekaða leit yfir daginn náðum við henni ekki fyrr en seinnipartinn þegar við komum heim. Þá hitti ég nágranna minn sem sagðist hafa verið að elta hænuna án árangurs og fleiri nágrannar bættust í hópinn til að aðstoða við að fanga hænuna sem tókst að lokum með aðstoð fiskiháfs. Hænurnar eru heimavanar og eiga því ekki að fara langt. 

Við höfðum íhugað það í nokkur ár að fá okkur hænur til að auka sjálfbærnina því þær éta alla matarafganga og í staðinn fáum við egg. Yfir dimmasta og kaldasta vetrartímann verpa hænurnar oftast ekki en með hækkandi sól fara þær aftur í gang og verpa þá yfirleitt einu eggi á dag. Við erum með þrjár hænur eins og er og dóttir mín, Agnes, nefndi hænurnar Gleimmérey, Sólskinsbros og Línu langsokk.“

Maron Bergmann Jónasson og hæna. Mynd/Stefán Karlsson.
Tryggir fæðuöryggi á heimilinu

Maron Bergmann Jónasson, íbúi í 104

„Hænurnar mínar eru að verða komnar úr eggjaeign. Þær eru orðnar svo gamlar að þær verpa ekkert í bili. Þær taka smá spretti og verpa í nokkrar vikur. Þá getur þetta farið upp í egg á hverja hænu á dag. En svo verða þær að hvíla sig inn á milli. Ég byrjaði að halda hænur árið 2009. Ég sagði svona í gríni eftir hrunið að þetta væri gert til þess að tryggja fæðuöryggi á heimili mínu. 

Ég er fæddur og uppalinn í sveit og mig hefur alltaf langað að eiga hænur. Mig langaði ekkert að eiga hund eða kött. Það voru ekki margir með hænur á þessum tíma, en við höfðum aðstæður til þess. Vorum með kalda geymslu á bak við bílskúrinn þar sem við settum upp hænsnakofa. Þar fluttu þær inn. Við höfum verið með páfagauka og naggrísi og ég veit ekki hvað áður. 

Það gengur ekki að vera með hana. Við vorum með hanaunga fyrst, en þeir voru farnir að tjá sig fullmikið á morgnana, þannig að nú erum við bara með hænur. 

Svo býr kanína með þeim. Ég er hissa á því hvað sambúðin er friðsæl. Hænurnar voru aðeins að pikka í kanínuna fyrst, en svo fór hún að svara fyrir sig og nú eru allir vinir. Ég þorði ekki annað en að fylgjast með fyrstu dagana og vikurnar svo enginn léti lífið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.