Viðskipti innlent

80 milljarðar í glataðar gjaldeyristekjur

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Vísir/Pjetur
Viðskiptaráð telur að fjármagnshöftin hafi dregið úr vexti útflutnings innan alþjóðageirans á Íslandi um allt að 80 milljarða króna árið 2013. Sú upphæð jafngildir um einni milljón króna í gjaldeyri á hverja fjölskyldu landsins. Viðskiptaráð segir að þessi fórnarkostnaður muni vaxa ár hvert með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á lífskjör í landinu.

„Kostnaður af höftunum er fyrst og fremst óbeinn eða fórnarkostnaður. Það er það sem við erum að reyna að setja einhvers konar mælistiku á í þessari skoðun og það er alltaf í einhverjum skilningi minna aðkallandi að fara í aðgerðir þegar menn eru að verða af einhverjum gæðum sem gætu orðið frekar heldur en þegar menn verða af einhverjum gæðum sem þegar eru til staðar,“ segir Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð segir að tekist hafi að útfæra höftin á þann veg að þau raski daglegu lífi einstaklinga lítið. Íslendingar hafi til að mynda enn frelsi til að kaupa og selja erlendar vörur og þjónustu, flytja fjármuni út vegna náms erlendis og nota greiðslukort í útlöndum. Þetta sé jákvætt, en hafi þær hliðarverkanir að afnám hafta verði síður knýjandi.

Frosti Ólafsson
Viðskiptaráð skiptir kostnaði vegna gjaldeyrishaftanna í beinan kostnað vegna umsýslu og óbeinan vegna efnahagslegra áhrifa. Sá beini, í formi eftirlits, útboða, undanþágubeiðna, ráðgjafar og annarrar umsýslu vegna haftanna sé umtalsverður. Sá sé þó lágur í samanburði við þann óbeina sem hlýst af höftunum í formi minni nýliðunar og hægari vaxtar fyrirtækja í alþjóðageiranum. Það sé erfitt að mæla töpuð tækifæri, en þróun síðustu ára gefur engu að síður vísbendingar um þann skaða sem höft á fjármagnsflutningum hafa valdið innan alþjóðageirans.

Þegar flæði fjármagns til og frá landinu var frjálst jókst útflutningur alþjóðageirans hratt, eða um átta prósent að meðaltali yfir fimmtán ára tímabil. Bæði fyrir og eftir þann tíma, þegar höft voru á flæði fjármagns, varð aftur á móti stöðnun og jafnvel samdráttur í útflutningi geirans. Ef útflutningur fyrirtækja í alþjóðageiranum hefði vaxið með óbreyttum hraða frá 2008 til 2013 væri hann um 160 milljörðum hærri á síðasta ári heldur en raunin varð.

„Það liggur fyrir að til þess að við getum vaxið með krafti til lengri tíma þá þarf útflutningur að vaxa í takt við hagkerfið. Alþjóðageirinn er sá hluti útflutnings sem er ekki bundinn vaxtarskorðum, þá tengt nýtingu náttúruauðlinda. Það er í samhengi við þetta að við viljum meina að það vegi að framtíðarlífskjörum í landinu ef tækifæri alþjóðageirans til að vaxa og dafna eru skert með þessu hætti. Ef horft er lengra fram á veginn þá þurfum við í vaxandi mæli að byggja útflutninginn á greinum sem ekki eru bundnar náttúruauðlindunum með beinum hætti og það er þar sem að höftin sverfa verulega að,“ segir Frosti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×