Viðskipti innlent

Laun bankastjóra Íslandsbanka hækkuðu á síðasta ári

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Höfuðstöðvar Íslandsbanka við Kirkjusand í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Íslandsbanka við Kirkjusand í Reykjavík. Fréttablaðið/Vilhelm
Gangi eftir tillaga stjórnar Íslandsbanka verður 40 prósentum af ríflega 23 milljarða hagnaði bankans á síðasta ári varið til greiðslu arðs til hluthafa. Þetta kemur fram í uppgjöri bankans sem birt var í gær.

Arðgreiðslan næmi þá tæplega 9.228 milljónum króna og rynni að stærstum hluta (8.766 milljónir króna) til þrotabús Glitnis banka, sem á 95 prósent í Íslandsbanka. Afgangurinn rynni til ríkisins sem á fimm prósenta hlut, eða 461,4 milljónir króna.

Í uppgjörinu koma einnig fram upplýsingar um launakjör stjórnar og æðstu stjórnenda. Árslaun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, fara úr 31,5 milljónum króna í 36,4 milljónir milli 2012 og 2013.

.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Hækkunin nemur 15,6 prósentum og samsvarar því að mánaðarlaun hafi farið úr rúmum 2,6 milljónum króna í rúmar 3,0 milljónir á mánuði. Hækkunin er hins vegar heldur meiri ef tekið er tillit til árangurtengdra greiðslana upp á 3,6 milljónir króna. 

Að henni meðtalinni nema launagreiðslurnar 40 milljónum króna og hækkuðu um 27 prósent milli ára. 

Árið 2012 voru engar árangurstengdar greiðslur, hvorki til bankastjóra né til sjö framkvæmdastjóra bankans. Heildargreiðslur til þeirra fóru úr 171,7 milljónum 2012 í 198,9 milljónir 2013. Eru þá taldar með árangurstengdar greiðslur upp á 18,2 milljónir króna og aukning milli ára nemur 15,8 prósentum. 

Að árangurstengdu greiðslunum frátöldum er hlutfallsleg launagreiðsluaukning til framkvæmdastjóranna 5,2 prósent og laun þeirra að jafnaði tæpar 2,2 milljónir króna á mánuði í fyrra.

Fram kemur í uppgjörinu að árangurstengdar launagreiðslur bankans byggi á reglum Fjármálaeftirlitsins, sem setji slíkum greiðslum þröngan ramma.

Auknar álögur sagðar draga úr hagnaði

Íslandsbanki hagnaðist um 23,1 milljarð króna á árinu 2013 samkvæmt uppgjöri sem birt var í gærmorgun.

Afkoman er rétt undir afkomu fyrra árs, þegar hagnaðurinn nam 23,4 milljörðum. „Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 14,7 prósent á árinu samanborið við 17,2 prósent árið 2012,“ segir í uppgjörstilkynningu.

Minni arðsemi er fyrst og fremst sögð skýrast af hækkun eigin fjár sem nemi 14,4 prósentum milli ára.

„Skattar og gjöld greidd til ríkis og stofnana námu samtals 12,4 milljörðum króna á árinu, samanborið við 9,2 milljarða króna 2012, sem er hækkun um 34 prósent á milli ára.“

Haft er eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að 2013 hafi verið gott ár hjá bankanum. Auknar álögur á bankann dragi hins vegar úr hagnaði. Hún bendir á að greiddur hafi verið bankaskattur upp á 2,3 milljarða króna á árinu.


Tengdar fréttir

Íslandsbanki hagnaðist um 23,1 milljarð króna í fyrra

Íslandsbanki hagnaðist um 23,1 milljarð króna á árinu 2013 samkvæmt uppgjöri sem birt var í morgun. Hagnaður á lokafjórðungi ársins var 7,7 milljarðar. Afkoman er rétt undir afkomu fyrra árs, en árið 2012 nam hagnaður bankans 23,4 milljörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×