Viðskipti innlent

Bjórinnflytjandi fékk 28 milljóna króna sekt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn hefur fjórar vikur til að greiða sektina. Annars þarf hann að sitja inni í tíu mánuði.
Maðurinn hefur fjórar vikur til að greiða sektina. Annars þarf hann að sitja inni í tíu mánuði. Vísir/Getty
Karlmaður á fimmtugsaldri var í gær dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða ríkissjóði 28 milljónir króna í sekt fyrir meiriháttarbrot á skatta- og bókhaldslögum sem framkvæmdastjóri einkahlutafélags sem stóð að innflutningi á bjór. Hann hefur fjórar vikur til að greiða ella þarf hann að sitja inni í tíu mánuði.

Maðurinn játaði brot sín gegn lögum um virðisaukaskatt og bókhald. Fyrir lá að hann skilaði hvorki virðisaukaskattsskýrslum né virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins frá 2009-2011. Í ljósi þess að maðurinn hafði ekki áður sætt refsingu og játaði þótti sex mánaða skilorðsbundinn fangelsisdómur til tveggja ára hæfilegur.

Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt var manninum jafnframt gert að greiða sekt. Þar sem um stórfellt brot var að ræða þótti ekki við hæfi að miða við lögbundið fésektarlágmark eins og segir í dómsorði. Var maðurinn dæmdur til að greiða 28 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs. Þarf maðurinn að greiða sektina innan fjögurra vikna en annars komi tíu mánaða fangelsi í stað sektarinnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×