Viðskipti innlent

Kleópatra framleiðir áfram Gunnars Majones

Haraldur Guðmundsson skrifar
Kleópatra Kristbjörg Stefánsdóttir stýrði Gunnars Majonesi hf. frá 2006-2014.
Kleópatra Kristbjörg Stefánsdóttir stýrði Gunnars Majonesi hf. frá 2006-2014.
Félag sem er alfarið í eigu Kleópötru Kristbjargar Stefánsdóttur hefur tekið við rekstri Gunnars Majoness. Félagið, Gunnars ehf., ætlar að framleiða majones og sósur fyrirtækisins.

Kleópatra er stjórnarformaður nýja félagsins og Hugrún Sigurjónsdóttir, sálfræðingur og fyrrverandi blaðamaður, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þess. Vísir hafði heimildir fyrir því að Kleópatra kæmi ekki að rekstri nýja félagsins, en það er ekki rétt.

Eins og komið hefur fram hefur Gunnars Majones hf. verið tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrirtækið var stofnað árið 1960 og rekstur þess hefur nú verið færður í nýja félagið, Gunnars ehf.

„Það eru í raun og veru engar breytingar á rekstrinum. Það eina er að það eru kennitöluskipti. Við verðum í sama húsnæði og reksturinn verður áfram í gangi með nýjum eigendum og kennitölu," segir Hugrún Sigurjónsdóttir. 

Gunnar Jónsson og eiginkona hans Sigríður Regína Waage stofnuðu fyrirtækið eins og áður segir árið 1960. Gunnar lést árið 1998 en síðustu ár hefur það verið rekið af dætrum hjónanna, Nancy og Helen. Þær voru, ásamt Sigríði Regínu, eigendur gjaldþrota félagsins.

Þrotabú Gunnars Majones hf. heitir nú GM framleiðsla hf. Félagið skilaði ekki inn ársreikningum árin 2012 og 2013 en samkvæmt ársreikningi 2011 var eigið fé þess neikvætt um tæpar 52 milljónir króna. Þá var hagnaður félagsins tæpar 11 milljónir króna og rúmar 15 milljónir árið áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×