Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi á síðustu tveimur mánuðum ársins 2013 nam tæpum 590 milljörðum króna, en er það 5% aukning frá sama tímabili árið 2012 en þetta kemur fram í frétt frá Hagstofu Íslands.
Heildarvelta árið 2013 nam rúmum 3.340 milljörðum króna og jókst um 3,3% frá fyrra ári.
Velta hefur aukist í flestum atvinnugreinum á milli ára, en mest í námugreftri og vinnslu hráefna úr jörðu, rekstri á gisti- og veitingastöðum, og byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Velta í framleiðslugreinum dróst hins vegar saman á milli ára.
Hagstofa Íslands birtir nú endurbætta tímaröð fyrir árin 2008-2013 yfir veltu í virðisaukaskattskyldri starfsemi.
Helstu endurbætur snúa að yfirferð og leiðréttingu á atvinnugreinamerkingum fyrirtækja sem skilar sér í auknum gæðum á sundurliðun veltu niður á atvinnugreinar.
