Viðskipti innlent

Jónmundur hættir hjá Sjálfstæðisflokknum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Jónmundur hefur verið framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins síðan í júní 2009.
Jónmundur hefur verið framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins síðan í júní 2009. Vísir/Vilhelm
Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sænska fjármálafyrirtækisins ScandCap á Íslandi.

Jónmundur  greindi frá ákvörðun sinni á fundi miðstjórnar í Valhöll í dag. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins síðan í júní 2009. Þar áður sat hann í bæjarstjórastóli á Seltjarnarness frá árinu 2002 til 2009.

Jónmundur hefur þegar störf á nýjum vettvangi en mun jafnframt starfa með nýjum framkvæmdastjóra flokksins næstu mánuði og sem ráðgjafi Sjálfstæðisflokksins.

Hjá Scandcap, sem stofnað var árið 2005, starfa um tuttugu manns á skrifstofum fyrirtækisins í Stokkhólmi og Höfðatorgi í Reykjavík. Fyrirtækið sérhæfir sig í að veita fyrirtækjum, stórum sem smáum, samtökum og opinberum aðilum margvíslega þjónustu, bæði hérlendis og erlendis. Einkum felst starfsemi þess í ráðgjöf við fjármögnun fyrirtækja, fjárhagslegri endurskipulagningu, verðmati auk aðstoðar við kaup,  sölu og samruna fyrirtækja. Fyrirtækið hefur átt í vaxandi viðskiptum á Íslandi undanfarin ár og stýrði meðal annars sölunni á íslenska fyrirtækinu Betware  sl. haust en sala fyrirtækisins til austurrískrar samsteypu er með stærstu fyrirtækjasölum síðustu ára á Íslandi.

ScandCap hefur um allnokkurt skeið undirbúið opnun skrifstofu á Íslandi og hefur Jónmundur nú verið ráðinn til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×