Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 2,9 ma.kr. á ársfjórðungnum samanborið við 5,6 ma.kr. óhagstæðan jöfnuð fjórðunginn á undan en þetta kemur fram í tilkynningu á vef Seðlabanka Íslands.
Þar hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2014 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður sem nemur 18,9 ma.kr. en þjónustujöfnuður hagstæður um 34,2 ma.kr.
Jöfnuður frumþáttatekna mældist neikvæður um 8,9 ma.kr. og rekstrarframlög voru neikvæð sem nemur 3,4 ma.kr.
Viðskiptajöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var hagstæður um 12,8 ma.kr. samanborið við 2,9 ma.kr. fjórðunginn á undan.
Fram kemur í tilkynningunni að Seðlabanki Íslands hafi tekið í notkun nýja staðla fyrir hagtölur greiðslujafnaðar og erlenda stöðu þjóðarbúsins og ku þetta vera fyrsta birtingin samkvæmt þeim.
Breytingar vegna nýrra staðla varða einna helst vöru og þjónustu, þáttatekjur og rekstrarframlög, beina fjárfestingu, sértæk félög og lífeyris- og tryggingasjóði.
Nánar er greint frá breytingunum í Upplýsingariti Seðlabankans sem kemur út í dag.

