Viðskipti innlent

Forritarar framtíðarinnar fá styrk

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðmundur Tómas Axelsson.
Guðmundur Tómas Axelsson.
Veittir verða styrkir úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar í húsakynnum CCP að Grandagarði 8 klukkan tvö í dag. Styrkirnir verða afhentir í viðurvist kennara og barna frá þeim skólum sem hlutu styrkina að þessu sinni.

Sjóðnum bárust alls 39 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum, eða 67%. Virði styrkjanna er samtals um fjórar milljónir króna. Styrkirnir eru í formi tölvubúnaðar og þjálfunar kennara til forritunarkennslu fyrir nemendur. Styrkirnir skiptast að þessu sinni á milli fjögurra skóla: Smáraskóla, Kirkjubæjarskóla, Grunnskólans í Sandgerði og Grunnskóla Vestmannaeyja.

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar hóf starfsemi sína í byrjun árs 2014 og er megin hlutverk sjóðsins að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun á tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun og tækjabúnað, allt eftir þörfum hvers og eins. Í tilkynningu segir að þetta sé í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en fyrri úthlutunin fór fram 21. febrúar síðastliðinn. Var þá úthlutað styrkjum að verðmæti fjórar milljónir króna. Samtals hefur því sjóðurinn úthlutað virði tæpra 8 milljóna króna í styrki til skóla á þessu ári.

„Við erum mjög ánægð með þær viðtökur sem sjóðurinn hefur fengið og þann fjölda umsókna sem hafa borist. Við erum stolt af því að hafa náð að úthluta styrkjum að verðmæti 8 milljóna á fyrsta starfsári. Við höfum fengið til samstarfs við okkur rosalega flotta hollvini, bæði einkafyrirtæki sem og mennta- og menningarmálaráðuneytið sem sýnir okkur hvernig atvinnulífið og hið opinbera geta unnið saman og náð árangri,“ segir Guðmundur Tómas Axelsson, stjórnamaður í Forriturum framtíðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×