Agnes segir framkvæmdir vegna framleiðsluaukningarinnar þegar hafnar. Þeim eigi að ljúka árið 2016.
„Við erum að stækka örlítið núna og erum að byggja 50 fermetra hús og láta smíða fyrir okkur þrjá nýja fjögur þúsund lítra tanka. Við sjáum svo fyrir okkur að geta bætt aðstöðuna fyrir átöppun og róbóta og farið í örlitla stækkun í tönkum á næsta ári. Við ætlum svo að klára þessu stækkun árið 2016 og þá vil ég fara í bjórspa-ið,“ segir Agnes.

„Við teljum að það sé markaður fyrir það. Síðasta sumar var allt að þriggja vikna biðlisti eftir því að fá Kalda á veitingastaði.“
Bjórspö eru að sögn Agnesar vel þekkt í Tékklandi. Hugmynd eigenda Bruggsmiðjunnar gengur út á að sjór og Kaldi séu hitaðir í þar til gerðu kari.
„Bjórinn er svo gríðarlega hollur fyrir húðina, og brugghúsið er við sjóinn, þannig að við munum nota hreinsaðan sjó og Kalda til að búa til spa-paradís.“
Agnes tekur fram að fyrirtækið hafi alltaf verið byggt upp í smáum skrefum og að skynsemin verði áfram höfð að leiðarljósi. Bruggsmiðjan var stofnuð í desember 2005 og hagnaður af rekstri hennar nam tæpum 40 milljónum króna á síðasta ári.
„Við fáum hingað gríðarlega mikið af gestum en það vantar meiri afþreyingu á staðinn og því ætlum við að fara í þessar framkvæmdir.“