Viðskipti innlent

Telja að viðskiptaþvinganir Rússa og ESB verði ekki langlífar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Danske Bank er stærsti banki Danmerkur.
Danske Bank er stærsti banki Danmerkur.
Gagnkvæmt viðskiptabann milli Rússland og Evrópusambandsins ætti ekki að vara lengur en í þrjá mánuði því hvorugt efnahagskerfið mun geta staðið undir slíkum höftum, ef marka má sérfræðinga á vegum stærsta banka Danmerkur, Danske Bank.

„Við teljum að stigmagnandi viðskiptastríð yrði óbærilegt bæði fyrir Rússland og Evrópusambandið og að ESB myndi aflétta banninu innan eins til þriggja mánaða, rétt eins og Rússar,“ segir í skýrslu bankans sem ber yfirskriftina „Ástandið í Úkraínu: Norræni vinkillinn“.

Skýrslan leggur áherslu á Norræna markaði og í henni segir að ef sala á eldsneyti mun blandast í deiluna muni tjón Rússa og ESB verða gífurlegt.

Evrópa kaupir um 30 prósent af öllu gasi sínu frá Rússlandi og eru Rússar stærsti einstaki söluaðili jarðefnagass til álfunnar.

Finnar eru taldir standa verst að vígi komi til slíks viðskiptabanns en áætlað er að þjóðarframleiðsla Finna muni dragast saman um 0.2 prósent í ár vegna þeirra köldu vinda sem blása milli ESB og Rússlands vegna ástandsins í Úkraínu. Finnland á mikið undir viðskiptum við Rússland og Úkraínu, sérstaklega á sviði ferðaþjónustu og beinnar erlendrar fjárfestingar í landinu.

Skýrsluhöfundar gera þó ráð fyrir því að Norðurlöndin muni ekki finna mikið fyrir mögulegu viðskiptabanni. Þvert á móti gæti Noregur jafnvel hagnast á slíkum refsiaðgerðum ef að lönd Evrópusambandsins fara heldur að kaupa jarðefnaeldsneyti frá Norðmönnum en Rússum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×