Viðskipti innlent

Ný greiðslukort með snertilausa virkni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Með snertilausri virkni geta notendur greitt fyrir vöru með því að bera kortið upp að kortalesaranum án snertingar.
Með snertilausri virkni geta notendur greitt fyrir vöru með því að bera kortið upp að kortalesaranum án snertingar. Vísir/Vilhelm
Breyting hefur verið gerð á fyrirkomulagi greiðslukorta hjá Íslandsbanka. Nýju kortin, sem væntanleg eru innan tíðar, eru með snertilausri virkni sem eykur þægindi viðskiptavina til muna að því er segir í tilkynningu frá bankanum. Hefur Íslandsbanki hætt samvinnu við VISA og hafið samstarf við Mastercard.

Um nýja kynslóð debet- og kreditkorta er að ræða sem hafa meiri virkni en þau kort sem eru í boði í dag. Öll kort verða t.a.m. með snertilausri virkni en kortin hafa ýmsa aðra kosti framyfir núgildandi kort. Þeirra á meðal eru snertilausar greiðslur og auðveldari netviðskipti. Að auki verður hægt að nota kortið hjá mun fleiri söluaðilum erlendis en hingað til hefur notkun debetkorta verið takmörkuð þar að því er segir í tilkynningu.

Snertilaus greiðslukort

Nýju MasterCard greiðslukortin verða með PayPass eða snertilausri virkni. Með snertilausri virkni geta notendur greitt fyrir vöru með því að bera kortið upp að kortalesaranum án snertingar. PIN númer er því óþarft.

Til að tryggja öryggi getur hver snertilaus greiðsla að hámarki verið 4.200 kr. og að hámarki getur samanlögð fjárhæð snertilausra greiðslna verið 10.000 krónur. Þegar hámarkinu er náð þarf að staðfesta greiðslu með PIN-númeri til þess að geta haldið áfram að greiða snertilaust. Þessi greiðsluleið hefur verið að ryðja sér til rúms erlendis á undanförnum árum og hefur öryggi hennar verið margprófað.

Veldu sjálfur PIN-númerið

Viðskiptavinir munu fá nýtt kort sent heim til sín. Hægt verður að virkja það með einföldum hætti í Netbankanum eða í útibúum Íslandsbanka. Þá verður einnig boðið upp á þá nýbreytni að viðskiptavinir geta sjálfir breytt PIN-númerinu sem fylgir kortinu í hraðbönkum Íslandsbanka.

„Með samstarfinu við MasterCard er Íslandsbanki að styrkja vöruúrval viðskiptavina sinna og svara auknum kröfum þeirra. Með tilkomu nýrrar kynslóðar greiðslukorta erum við að bjóða upp á nýjar lausnir sem auðvelda viðskiptavinum okkar að eiga viðskipti, hvort sem er á netinu eða með snertilausri virkni. Við erum stolt af samstarfi okkar við MasterCard sem gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum okkur upp á nýja og spennandi þjónustu. Með samstarfinu styrkir Íslandsbanki enn frekar stöðu sína á greiðslukortamarkaði,“ segir Sveinbjörn Snorri Grétarsson, forstöðumaður ÍSB korta.

Bart Willaert, framkvæmdastjóri MasterCard á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum fagnar samstarifnu við Íslandsbanka.

„Við fögnum samstarfinu við Íslandsbanka. Með því eru tekin fyrstu skrefin í átt að snerti- og seðlalausum viðskiptum á Íslandi. Íslendingar verða brautryðjendur í þessum nýja greiðslumáta en með MasterCard verða greiðslur auðveldari, fljótlegri og öruggari, bæði á netinu og í verslunum um heim allan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×