Innlent

„Læknar eru búnir að fá nóg“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Flótti lækna frá landinu verður ekki stöðvaður nema launakjör þeirra verði bætt, segir formaður samninganefndar lækna. Þriggja prósenta launahækkun eins og læknum bjóðist nú dugi ekki til að sporna við þeirri þróun.

Fátt bendir til þess að unnt sé að forðast að verkfall skelli á, 27.október næstkomandi. Mikið ber í milli hjá deiluaðilum og hafa engir fundir verið boðaðir. Rafræn kosning um verkfallsaðgerðir standa nú yfir hjá Læknafélagi Íslands og Skurðlæknafélagi Íslands. Niðurstöðu úr þeim kosningum er að vænta í næstu viku. Formaður samninganefndar lækna á ekki von á öðru en læknar samþykki að boða til verkfalls.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því. Ég er bjartsýn á að þeir samþykki þessa beiðni þó að það sé okkur ekki ljúft að fara í verkfall,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, skurðlæknir og formaður samninganefndar lækna.

Sigurveig segir að takmarkað umboð samninganefndar ríkissins til að mæta kröfum lækna torvelda samningaviðræður. Fast sé haldið í þá stefnu stjórnvalda sem sett var í upphafi árs að miða eigi við 2,8 prósenta hækkun hjá opinberum starfsmönnum. Þau takmörk séu hinsvegar fokin út í veður og vind og forsendur fyrir slíkum samningum löngu brostnar.

„2,8-3 prósent hækkun duga ekki því við vitum að það er læknaflótti frá landinu og við verðum að sporna við því. Það verður ekkert gert öðruvísi en að hækka laun.”

„Hvernig þyrfti tilboð ríkissáttasemjara að hljóða til þess að þið mynduð skrifa undir?”

„Ég er nú ekki tilbúin til að svara þessu í dag. Við viljum bíða þar til atkvæðagreiðslu er lokið og svo getum við séð til.“



Sigurveig segir að langtímamarkmið lækna sé að ná upp í svipuð laun og kollegar þeirra á Norðurlöndunum.

„Í hinu fullkomna landi með fullkomnum efnahag, þá erum við með sömu laun og löndin í kring. Þá erum við samkeppnishæf og málið leyst,“ segir Sigurbjörg.

En eruð þið að fara fram á það?“

„Við erum ekki að fara fram á það.“

Samkvæmt heimildum fréttastofu vilja læknar miða sig við svokölluðu BHM samninga sem gerðir voru í vor. Þar var í flestum tilfellum samið um 8-10 prósenta launahækkun. Seðlabankastjóri sagði í fréttum í vikunni að hækka þyrfti stýrivexti ef almenn launahækkun yrði meiri en 3,5 prósent.

„Læknar eru búnir að fá alveg nóg. Læknar verða þreyttir eins og annað fólk, þeir vinna mikið og það er óhóflegt vinnuálag. Eftir því sem læknur fækkar, þeim mun meira eykst vaktabyrðin á hvern og einn sem og fjöldi sjúklinga. Víða er þetta komið úr hófi og þessvegna verður að spyrna við fótunum. Við viljum ekki læknislaust land,“ segir Sigurbjörg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×