Viðskipti innlent

Flugmenn segja skipulagsleysi Icelandair um að kenna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Um var að ræða næturflug til Parísar um Verslunarmannahelgina.
Um var að ræða næturflug til Parísar um Verslunarmannahelgina. Vísir/Pjetur
Íslenskir atvinnuflugmenn eru allt annað en sáttir við að forsvarsmenn Icelandair hafi kennt verkfallsaðgerðum flugmanna um niðurfellingu flugs FI540 um Verslunarmannahelgina þann 2. ágúst. Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) sendi frá sér harðorða tilkynningu vegna málsins í gær sem Vísir fjallaði um.

Um var að ræða næturflug Icelandair til Parísar. Forföll urðu í flugstjóraklefanum og tókst ekki að finna finna menn til að fljúga vélinni í staðinn. Segja FÍA menn að farþegum hafi verið gefin sú skýring að flugið hafi verið fellt niður vegna verkfallsaðgerða flugmanna. Það sé hins vegar alrangt. Flugmenn hafi farið í verkfall 2. maí og ekki verið í verkfallsaðgerðum síðan skrifað var undir kjarasamning þann 21. maí.

„Ofangreind ástæða sem starfmaður þjónustueftirlits Icelandair gefur farþegum félagsins er því með öllu óskiljanleg og aðför að heilum hópi samstarfsmanna hans,“ segir í tilkynningu FÍA.

Heimildir Vísis herma að hringt hafi verið í nokkra flugmenn þegar í ljós kom að það vantaði mannskap til að fljúga vélinni. Flestir flugmannanna höfðu þó önnur plön þessa helgi og reyndist erfitt að kalla menn út. Einhverjir buðust til að taka vaktina að sér fengu þeir hærri greiðslu fyrir útkallið vegna aðstæðna. Á það var ekki fallist og fór svo að fella þurfti flugið niður.

Ekki hefur náðst í Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúa Icelandair, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.Vísir/Anton
Skipulagsleysi um að kenna

Flugmenn vilja meina að um skipulagsleysi af hálfu Icelandair hafi verið að ræða og furða sig á því að vísað sé til verkfallsaðgerða flugmanna vegna þess að fyrirtækinu tókst ekki að manna flugið.

„Það er leitt að menn skuli leiðast út á þessa braut og stjórn stéttarfélagsins telur óhjákvæmilegt að opinbera framkomu þjónustueftirlits Icelandair, í ljósi þess að óvíst er hve margir aðrir en þeir sem leituðu til FÍA hafi fengið þessa skýringu á niðurfellingunni.“

FÍA menn vilja sjálfir ekki tjá sig um ástæðu þess að flugið var fellt niður. Þeir telja það ekki hlutverk sitt og vísa á Icelandair. Ekki liggur fyrir hvers vegna Icelandair var ekki með flugmann á bakvakt í Parísarfluginu eins og venja er.

Vísir hefur reynt að ná tali af Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, í rúman sólarhring en án árangurs.


Tengdar fréttir

Segja Icelandair bera flugmenn röngum sökum

"Það er leitt að menn skuli leiðast út á þessa braut og stjórn stéttarfélagsins telur óhjákvæmilegt að opinbera framkomu þjónustueftirlits Icelandair.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×