Viðskipti innlent

Björgólfsfeðgar bera vitni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björgólfur Thor bar einnig vitni í Imon-málinu í vor.
Björgólfur Thor bar einnig vitni í Imon-málinu í vor. Vísir/Vilhelm
Vitnaleiðslur hefjast í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og þremur undirmönnum hans vegna meintrar markaðsmisnotkunar í aðdraganda bankahrunsins.

Yfir 50 einstaklingar eru kallaðir til sem vitni í málinu. Á meðal þeirra eru Björgólfur Guðmundsson og sonur hans, Björgólfur Thor Björgólfsson, en þeir voru stærstu eigendur Landsbankans.

Einnig mun Halldór J. Kristjánsson, sem var bankastjóri ásamt Sigurjóni, bera vitni auk Elínar Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans. Þá hefur Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sem átti sæti í bankaráði Landsbankans, einnig verið boðaður sem vitni.

Gert er ráð fyrir að vitnaleiðslurnar taki þrjá daga. Þeim ætti því að ljúka á mánudaginn en miðað við umfang málsins og hvað það hefur nú þegar dregist á langinn má búast við að vitnaleiðslur taki lengri tíma en ætlast er til.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×