Innlent

Útgerðin hefur saxað verulega á skuldir

Heimir Már Pétursson skrifar
Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri LÍÚ segir stöðu útgerðarinnar sterka. Þörf sé á mikilli fjárfestingu og leggja verði veiðigjöld á með fyrirsjáanlegum hætti.
Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri LÍÚ segir stöðu útgerðarinnar sterka. Þörf sé á mikilli fjárfestingu og leggja verði veiðigjöld á með fyrirsjáanlegum hætti.
Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte telur að lækka þurfi veiðigjöld á útgerðina vegna lækkandi framlegðar, en á sama tíma hafa bæði arðgreiðslur til eigenda hækkað og skuldir útgerðarfyrirtækja lækkað um rúma 150 milljarða frá árinu 2009

Deloitte kynnti niðurstöður sínar um stöðu sjávarútvegsins á sérstökum sjávarútvegsdegi í gær. Þar kom fram að framlegð fyrirtækjanna er um 62 milljarðar árið 2013 en hún hefur minnkað um 15 milljarða frá árinu á undan. Skuldir útgerðanna hafa hins vegar lækkað töluvert frá árinu 2009 eða úr 494 milljörðum króna í 341 milljarð í lok ársins í fyrra.

Útgerðirnar hafa fjárfest töluvert á undanförnum tveimur árum, eða um 17 milljarða árið 2012 en lækkaði niður í 11 milljarða í fyrra. Fyrirtækin greiddu eigendum sínum tæpa 12 milljarða í arð árið 2013 og hækkuðu um 6 milljarða. Núverandi ríkisstjórn hefur lækkað veiðigjöld á útgerðina umtalsvert en þau voru um 10 milljarðar árin 2012 og 2013 og telur Deloitte þörf á að lækkað þau enn frekar.

Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna segir stöðu útgerðarinnar sterka.

Vissulega hefur framlegðin dregist aðeins saman en það er í sjálfu sér ekki hægt að kvarta undan afkomu útgerðarinnar eins og hún er í dag,“ segir Kolbeinn.

Hvað veiðigjöldin varði leggi útgerðin áherslu á að þau fylgi afkomu útgerðarinnar og sett á með fyrirsjáanlegum aðferðum þannig að hægt að sé að taka tillit til þeirra í rekstrinum. Þá verði þau lögð á þannig að þau hamli ekki þróun innan greinarinnar.

„Þetta er ákveðið ár frá ári með bráðabirgðaákvæðum. Þannig að kerfið er ekki uppsett. Ef á að ákveða á sama grunni veiðigjöld fyrir næsta ár og gert hefur verið undanfarin tvö, þrjú ár þá er það algerlega hulið okkur hvernig það verður gert. Við getum svosem áætlað eitthvað út frá því sem gert er núna. En það sem var gert í ár er öðruvísi en gert var fyrir ár,“ segir Kolbeinn.

Nauðsynlegt sé að auka fjárfestingu í greininni þar sem fiskiskipaflotinn sé meira og minna um eða yfir 30 ára gamall.

En það vekur auðvitað athygli að útgerðinni hefur tekist á einhverjum árum að lækka skuldirnar sínar um rúma 150 milljarða og það er nú ansi vel að verki staðið?

„Já, eins og ég segi, ég dreg ekkert úr því að og við erum bara stoltir af því að afkoman hefur verið góð undanfarin ár. Vissulega var skuldastaðan orðin ansi slæm eftir hrun og það var nauðsynlegt að taka til. Góð rekstrarskilyrði og afkoma hafa síðan gert það að verkum að mönnum hefur tekist það,“ segir Kolbeinn Árnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×