Viðskipti innlent

Hæstiréttur staðfestir að ríkið þurfi að greiða Vífilfelli 80 milljónir

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/gva
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að íslenska ríkið skuli greiða Vífilfelli til baka 80 milljónir sem fyrirtækið hafði greitt í stjórnvaldssekt.

Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið þarf einnig að greiða fyrirtækinu 1,5 milljónir í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður snúið við úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála þess efnis að Vífilfell hafi brotið gegn samkeppnislögum og var íslenska ríkið dæmt til að greiða Vífilfelli til baka 80 milljónir króna sem fyrirtækið hafði greitt í stjórnvaldssekt.

Samkeppniseftirlitið komst upphaflega að þeirri niðurstöðu að Vífilfell hefði brotið gegn ákvæðum um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu og gert fyrirtækinu að greiða 260 milljónir í stjórnvaldssekt. Fyrirtækið hafði ekki greitt þá upphæð að fullu og því fær Vífilfell 80 milljónir greitt til baka. 

Málið snerist um samninga Vífilfells við birgja þar sem viðsemjendur skuldbundu sig til að bjóða eingöngu upp á vörur frá Vífilfelli en auk þess skoðaði Samkeppniseftirlitið ákvæði samninga sem virtust viðhalda tryggð endursöluaðila við vörur fyrirtækisins.

Taldi Samkeppniseftirlitið að viðskiptasamningar Vífilfells hefðu að geyma ákvæði þar sem viðsemjendur fyrirtækisins skuldbundu sig til að tryggja Vífilfelli hillupláss, framsetningu og aðra stöðu sem virtist ætlað að viðhalda og styrkja markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins.

Í öðrum samningum skuldbundu viðsemjendur áfrýjanda sig til að bjóða eingöngu upp á vörur frá Vífilfelli og einhverjum ákvæðum var ætlað að viðhalda tryggð endursöluaðila við vörur fyrirtækisins.

Uppfært 17:20

Í tilkynningu frá Vífilfelli segir að Vífilfell lýsi yfir ánægju sinni með dóm Hæstaréttar og fagni því „að niðurstaða sé loks fengin í málið, meira en 7 árum eftir að Samkeppniseftirlitið hóf að eigin frumkvæði athugun sína.

Dómurinn er í samræmi við væntingar okkar en ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á sínum tíma kom okkur á óvart. Við höfum frá upphafi talið að málarekstur Samkeppniseftirlitsins sé ekki á rökum reistur og hefur það nú fengist staðfest.

Við væntum þess að málið sé nú að baki og við hlökkum til að geta tekið þátt í samkeppni á jafnræðisgrundvelli.“



 

 

 
 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×