Innlent

Bjarni Ben bætir við aðstoðarmanni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Teitur Björn Einarsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.

Teitur er 34 ára lögfræðingur frá Háskóla Íslands og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 2007. Eftir útskrift frá lagadeild starfaði hann hjá LOGOS lögmannsstofu frá 2006-2007, í framkvæmdastjórn og stjórn Eyrarodda hf. á Flateyri 2007-2011 og sem lögmaður hjá OPUS lögmönnum frá 2011.

Með ráðningunni hefur ráðherra nú tvo aðstoðarmenn sér við hlið. Svanhildur Hólm, sem áður gegndi stöðu framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hefur verið aðstoðarmaður Bjarna undanfarin tvö ár.

Teitur, sem einnig er liðtækur píanóleikari, hóf störf í fjármálaráðuneytinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×