Viðskipti innlent

Söluhæsti mánuður WOW frá upphafi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Sætanýting flugfélagsins WOW air var 92 prósent í júlí síðastliðnum og var hann söluhæsti mánuður félagsins frá upphafi. Fyrstu sjö mánuði ársins flutti fyrirtækið rúmlega 300 þúsund farþega og er það um 85 þúsund meira en á sama tíma í fyrra.

WOW air flutti 72.573 farþegar í júlí samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Þá segir þar að brottfarir félagsins hafi verið í 92 prósentum tilvika á réttum tíma í mánuðinum. Einnig segir að stundvísi félagsins hafi mælst yfir 90 prósent sem af er árinu.

„WOW air er því stundvísasta flugfélag Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2013 flutti félagið um 215 þúsund farþega, en á sama tímabili á þessu ári hafa farþegarnir verið rúmlega 300 þúsund. Það samsvarar um 30 prósent hækkun á milli ára.

Þá segir í tilkynningunni að bókunarstaða félagsins fyrir veturinn sé verulega betri en í fyrra. „Það er mjög ánægjulegt að sjá betri dreifingu ferðamann yfir árið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×