Innlent

15 þúsund hafa skoðað orkusýningu í Búrfellsstöð

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ef fjölskylduna vantar áhugaverðan viðkomustað í sumarfríinu er ekki úr vegi að koma við í Búrfellsstöð, en þar er að finna gagnvirka orkusýningu sem varpar ljósi á endurnýjanlega orkugjafa.

Eftirspurn eftir endurnýjanlegum orkugjöfum fer vaxandi um allan heim og á sýningunni í Búrfellsstöð fá gestir innsýn í slíka orkuvinnslu og orkunotkun, og tækifæri til að velta fyrir sér hvernig framtíðin lítur út með tilliti til nýtingar vatnsafls, jarðvarma, vindorku og sjávarafla. Markmiðið er að komast í tengingu við almenning.

„Og að opna dyrnar hérna hjá okkur, til að almenningur sjái hvað við erum að gera og ekki bara Landsvirkjun, heldur bara hvað raforkuframleiðslan gengur út á,“ segir Ingvar Hafsteinsson, stöðvarstjóri á Þjórsársvæði. „Hér getur fólk áttað sig á hvernig endurnýjanlegir orkugjafar eru, hvernig rafmagn verður til og hvað við erum að tala um þegar við tölum um samfélagsábyrgð. Þetta er hugsað bæði sem fræðsla og leikur.“

Sýningin er hönnuð af Gagarín og áhersla er lögð á gagnvirkni og upplifun. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði geta gestir til dæmis spreytt sig á að stýra vatnsaflsstöð, sem reynslan hefur sýnt að fullorðnir hafa ekki síður gaman af en börn, og skoða rafmagnsnotkun venjulegra heimilistækja á skemmtilegan hátt.

Sýningin var opnuð í byrjun sumars árið 2011.

„Frá opnun hafa komið hingað um 15 þúsund manns og aðsókn er að aukast,“ segir Ingvar.

Sýningin er opin alla daga frá tíu til fimm í sumar og aðgangur er ókeypis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×