Viðskipti innlent

Þróa beinfyllingarefni og efni gegn bólgum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eitt lengsta þróunarverkefni í atvinnulífi hérlendis, uppbygging líftæknifyrirtækisins Genís á Siglufirði, má rekja sautján ár aftur í tímann. Frumkvöðullinn Róbert Guðfinnsson vonast til að starfsemin komist á fullt innan þriggja ára og skapi þá allt að fjörutíu störf í gamla síldarbænum. 

Genís er meðal þeirra verkefna sem við höfum fjallað um í þáttunum Um land allt. Sögu þess á Siglufirði má rekja aftur til ársins 1997 þegar Róbert stóð fyrir því að Þormóður rammi hóf að vinna kítin úr rækjuskel. Árið 2000 kynnti fyrirtækið fæðubótarefni, Kitocol, sem megrunarefni og til lækka kólesteról.

Frá rannsóknarstofu Genís á Siglufirði.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Árið 2005 keyptu Róbert og samstarfsaðilar rannsóknar- og þróunardeild fyrirtækisins út úr Þormóði ramma og síðan hefur Genis í samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn verið að þróa lyf og fæðubótarefni. Róbert segir að nú séu tvær vörutegundir í þróun.

„Annarsvegar inntökufæðubótarefni sem hefur áhrif á sjúkdóma sem byrja á bólgum. Hitt er beinfyllingarefni sem menn setja í brotin bein, eða ef þarf að opna bein, sem eykur beinvöxtinn og kemur í veg fyrir að það myndist ör í beinvefnum,“ segir Róbert.

Róbert sýnir fréttamanni Stöðvar 2 tilraunaverksmiðju Genís.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Tilraunaframleiðsla er hafin á fæðubótarefni, sem á að koma á markað í haust en jafnframt eru að fara í gang lyfjaprófanir. Þegar er búið að setja um einn milljarð króna í verkefnið. 

Spurður hvort hann sé viss um að þetta gangi upp svarar Róbert:

„Nei. Í þessari grein er maður aldrei viss um neitt. En ef þú gerir ekki neitt, þá kemstu aldrei að því.” 

Hann kveðst þó bjartsýnn um að framleiðslan komist fullt á næstu þremur árum og að þá verði 30 til 40 manns í vinnu við líftækni á Siglufirði. Ítarlegri umfjöllun um Genís má sjá í þættinum Um land allt.

Milli 8 og 10 manns starfa nú hjá Genís á Siglufirði. Róbert vonast til að starfsmenn verði allt að 40 talsins innan þriggja ára.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson

Tengdar fréttir

Róbert tók 114 milljónir út, setur núna 3 milljarða inn

Róbert Guðfinnsson er að setja yfir þrjá milljarða króna í sinn gamla heimabæ, Siglufjörð. Hann byggir upp ferðaþjónustu, líftæknifyrirtæki, áformar efnaverksmiðju og býr til golfvöll og skíðasvæði fyrir eigin reikning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×