Viðskipti innlent

„Dómurinn er mikil vonbrigði“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Dómur féll í máli Stapa lífeyrissjóðs og Glitnis í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær. Dómsmálið var höfðað vegna átján samninga sem ekki höfðu verið gerðir upp, og gerði Glitnir þá kröfu að allir þeir yrðu greiddir. Glitnir byggir á því að samningar hafi verið gerðir af skrifstofustjóra Stapa og voru lagðar fram hljóðupptökur því til staðfestingar.  Stapi var því dæmdur til að greiða Glitni rúmlega 3,6 milljarða að frádregnum 750 milljón króna innborgunum auk dráttarvaxta.

„Dómurinn er mikil vonbrigði og kemur okkur nokkuð á óvart, bæði dómsorðið og röksemdafærsla dómarans“ segir Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, í tilkynningu á vefsíðu Stapa.

Kári segir áhyggjuefni hversu ólíkir dómar falli í afleiðusamningsmálum sem þessum og segir hann niðurstöðuna á þveröfugan veg miðað við þennan dóm.

„Það sorglega við dómsniðurstöðuna er að dómarinn virðist ekki skilja eðli þessara viðskipta og ruglar m.a. saman stundarviðskiptum með gjaldmiðla og framvirkum gjaldmiðlaviðskiptum, sem er sitt hvað, svo dæmi sé tekið. Hann byggir dóminn nær alfarið á markaðsskilmálum Glitnis og er engu líkara en að það hafi verið nær einu gögnin sem dómarinn kynnti sér, þótt hann virðist ekki fyllilega skilja sum ákvæði skilmálanna.“

Hann segir dómarann tiltaka ný rök fyrir Glitni sem ekki séu hluti af þeirra málsástæðum. Þá segir hann áhættu fólgna í því að fara með mál af þessu tagi fyrir dómstóla þar sem þau séu flókin og reyni á sérþekkingu.

„Dómarinn í þessu máli virðist þannig alls ekki skilja hvers eðlis viðskipti af þessu tagi eru. Það eru líka vonbrigði að hann skautar mjög létt fram hjá öllum okkar málsástæðum eða fjallar alls ekki um þær.“

Þá segir  hann að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

„Ekki er ástæða til að örvænta, ekki síst vegna þess hve dómurinn er illa rökstuddur og byggir að minnsta kosti að hluta á misskilningi. Þetta er í það minnsta mat okkar lögmanna.“

Hann segir að þó Hæstiréttur myndi staðfesta þennan dóm þá sé ekki víst að það hafi nein teljandi áhrif á afkomu Stapa.

„Stapi lífeyrissjóður á um 6 milljarða kröfur á Glitni, sem hafa verið færðar niður. Þær munu væntanlega nýtast til skuldajöfnunar á móti þessum kröfum. Um það er þó ekki hægt að fullyrða fyrr en hæstaréttardómur er genginn og á skuldajöfnun verður látið reyna. Við munum hins vegar sækja það fast að fá málinu snúið við í Hæstarétti,“ segir Kári Arnór að lokum.


Tengdar fréttir

Stapi greiði Glitni 3,6 milljarða

Stapi lífeyrissjóður hefur verið dæmdur til að greiða Glitni hf.rúmlega 3,6 milljarða króna vegna ógreiddra afleiðusamninga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×