Viðskipti innlent

Bjarni segir gjaldeyrishöftin mögulega afnumin á þessu ári

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Daníel
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, var í viðtali við Aftenposten sem birt var í dag en hann var í Noregi vegna ráðstefnu. Í viðtalinu segir hann að hægt sé að læra af þremur mikilvægum atriðum frá hruni fjármálakerfisins á Íslandi.

Í fyrsta lagi hafi góð skuldastaða hins opinbera gert stjórnvöldum mögulegt að taka lán til að viðhalda efnahagslífinu í gegnum erfiða tíma.

Í öðru lagi hafi sjálfstæður gjaldmiðill þýtt að ekki þurfti að lækka laun eins og víða var gert í Evrópusambandinu. Þess í stað var hægt að gera kerfisbreytingar vegna gengis krónunnar.

Þá sagði hann neikvæð áhrif þess að láta stóra banka verða gjaldþrota, sem sagt bjarga þeim ekki, vera ofmetin.

Bjarni sagði gjaldeyrishöftin virka eins og búr yfir hagkerfinu og þau sýni að staðan hér sé ekki eins og hún ætti að vera. Þó séu engin vandamál fyrir fjárfesta að koma til Íslands í dag, en huglæg áhrif haftanna séu veruleg.

Þá sagði Bjarni að ríkisstjórnin stígi varlega til jarðar varðandi afnám haftanna, en vonast sé til þess að hægt væri að afnema þau fljótlega. Jafnvel á þessu ári.

Í viðtalinu segir Bjarni að lagaumgjörð fjármálakerfisins fyrir hrun hafi verið of veikbyggð og ekki hafi verið greint nógu vel á milli viðskiptabanka og fjárfestingabanka.

Þar að auki hafi eigendur bankanna fengið allt of mikið svigrúm. Þeir hafi tekið margar áhættusamar ákvarðanir sem hafi haft áhrif á hagkerfið í heild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×