Viðskipti innlent

Jón degur framboð sitt til stjórnar til baka

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Anton
Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri FL Group, hefur ákveðið að draga framboð sitt til stjórnar N1 til baka. Í bréfi til stjórnarformanns félagsins segir Jón að ástæður þess séu að kauphöllin hafi tilkynnt N1 fyrir tveimur dögum um stofnunin hefði efasemdir um hæfi Jóns til að gegna stjórnarstöðu í skráðu félagi.

„Í bréfi kauphallarinnar til félagsins kom jafnframt fram að verði ég kjörinn í stjórn muni kauphöllin íhuga ráðstafanir til að koma þessum efasemdum sínum á framfæri við markaðsaðila, eða eftir atvikum, sett bréf félagsins á athugunarlista. Í ljósi þessa, og með hagsmuni N1 að leiðarljósi, hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka,“ segir Jón í bréfi sínu.

Hann er ekki sáttur við afstöðu og framgöngu kauphallarinnar og segir mat sitt og lögmanna hans vera að hún hafi ekki lagalega- né samningsbundna heimild til að beita sér á þennan hátt.

Athugasemdir Jóns eru þrenns konar.

Í fyrsta lagi segir hann hæfi sitt til setu í stjórn skráðs félags vera ótvírætt samkvæmt lögum.

Þá hefur kauphöllin vísað til þriggja áminninga sem FL Group/Stoðum hf. var veitt þegar Jón var forstjóri félagsins. Hann segir fyrri tilvikin hafa átt sér stað fyrir um sex árum. Jón segir ágreining hafa verið á milli kauphallarinnar og FL Group um hvort félagið hafi í raun gerst brotlegt.

„Um fyrri málin tvö áttu sér stað umfangsmikil bréfaskipti milli kauphallarinnar og félagsins þar sem skoðanaskipti fóru fram um hvort reglur kauphallarinnar hefðu verið brotnar. Félagið mótmælti því að svo hefði verið og taldi sig hafa farið að lögum og reglum, en kauphöllin tók athugasemdir félagsins ekki til greina. Engir eftirmálar urðu vegna þessara mála af hálfu opinberra eftirlitsaðila.“

„Um síðasta tilvikið sem varðar birtingu ársreiknings vegna ársins 2008 hefur það verið útskýrt fyrir kauphöllinni að FL Group fór, eins og fjölmörg önnur félög á þessum tíma, í greiðslustöðvun í september 2008 og leitaði í kjölfarið nauðasamninga. Óvissan var slík hjá félaginu á fyrri hluta árs 2009 að það var einfaldlega ógerlegt að birta ársreikning fyrir lok apríl árið 2009, eins og reglur kauphallarinnar gerðu ráð fyrir.“

Í þriðja lagi bendir Jón á að málin séu orðin fimm til sex ára gömul og lög segi til um að aðili sem hafi gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga í tengslum við atvinnurekstur sé orðinn hæfur stjórnarmaður eftir þrjú ár.

„Það skýtur skökku við að kauphöllin ætli að leggja til grundvallar í afgreiðslu sinna mála að það sé réttlætanlegt að áminning kauphallarinnar sem er orðin nánast 5 ára gömul, og í tveimur tilvikum 6 ára gömul, geti leitt til þess að vafi leiki um hæfi einstaklings til að sitja í stjórn skráðs hlutafélags.“

„Mér finnst miður að þurfa að draga framboð mitt til stjórnar í N1 til baka og bið ég hluthafa N1 afsökunar á þessum óþægindum. Ég bauð mig fram til stjórnarsetu af því að ég hef áhuga á framgangi félagsins og taldi reynslu mína geta nýst félaginu vel. En eins og áður sagði, í ljósi afstöðu kauphallarinnar og að teknu tilliti til hagsmuna félagsins og hluthafa þess, tel ég rétt að láta staðar numið og dreg því framboð mitt til stjórnar félagsins til baka,“ segir Jón í bréfi sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×