Viðskipti innlent

Gjaldeyrishöftin draga úr hagvexti og auka líkur á atgervisflótta

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gjaldeyrishöftin kostuðu íslenskt samfélag um 80 milljarða í útflutningstekjur á síðasta ári þegar horft til fyrirtækja innan alþjóðageirans. Hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands segir nauðsynlegt að ríkisstjórnin leggi fljótlega fram trúverðuga áætlun um afnám hafta en að öðrum kosti muni draga úr hagvexti og atgervisflótti aukast.

Viðskiptaráð Íslands hefur lagt mat á áhrif gjaldeyrishaftanna á nýliðun og vöxt  fyrirtækja innan alþjóðageirans. Samkvæmt þessu mati dróst útflutningur saman um 80 milljarða á síðasta ári. Sú upphæð jafngildir um einni milljón króna í gjaldeyri á hverja fjölskyldu landsins.

Björn Brynjúlfur Björnsson hagfræðingur Viðskiptaráðs segir að gjaldeyrishöftin muni smám saman draga úr lífskjörum hér á landi.

„Þetta kemur fram í því að hagvöxtur á Íslandi verður lægri. Það skapast færri hálaunastörf sem byggja á þekkingu, atvinnulífið verður einsleitara það verða færri tækifæri fyrir ungt fólk. Þannig að þetta getur stuðlað að atgervisflótta og bitnar fyrst og fremst á lífskjörunum,“ segir Björn.

Björn segir mikilvægt að ríkisstjórnin leggi fram trúverðuga áætlun um afnám hafta.

„Um leið og trúverðug áætlun um afnám hafta liggur fyrir þá er hægt að koma í veg fyrir frekara tjón. Áætlun sem byggir á því að allir aðilar innan hagkerfisins trúi því að þeir geti farið að fjárfesta aftur til að byggja upp starfsemi sína. Þess vegna er það einnig mikilvægt að ný áætlun um afnám hafta taki ekki bara á bönkum í slitameðferð heldur nái yfir alla aðila og sérstaklega þessi alþjóðafyrirtæki,“ segir Björn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×