Viðskipti innlent

Seðlabankinn varar við sýndarfé

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Seðlabanki Íslands varar við notkun sýndarfés, eða stafrænum skiptimiðli. Segir bankinn að Bitcoin sé þekkt dæmi um sýndarfé og nú berist fréttir af sérstöku sýndarfé fyrir Íslandi, Auroracoin. Í tilkynningu á vef Seðlabankans segir að hvorki Auroracoin né Bitcoin sé viðurkenndur lögeyrir eða gjaldmiðill í skilningi íslenskra laga.

„Vert er að minna á að hér á landi hefur Seðlabanki Íslands einkarétt til að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem getur gengið manna á milli í stað peningaseðla og löglegrar myntar.“ Þá segir einnig að sýndarfé sé ekki heldur skilgreint sem rafeyrir.

Ennfremur segir að notkun sýndarfjár falli utan gildissviðs laga um greiðsluþjónustu. „Að baki útgáfu Auroracoin stendur ekki starfsleyfisskyldur aðili háður eftirliti fjármálaeftirlitsstofnunar, frekar en að baki Bitcoin og sambærilegs sýndarfjár, eftir því sem næst verður komist.“

„Stjórnvöld og löggjafarþing hvarvetna standa nú frammi fyrir því krefjandi viðfangsefni að eyða lagalegu tómarúmi sem að sýndarfé snýr. Á vettvangi ESB er unnið að lausn sem væntanlega mun felast í breytingum á samevrópsku regluverki.“

Mat bankans er að notkun og/eða viðskipti með sýndarfé hér á landi hafi ekki áhrif á fjármálastöðugleika hér á landi.

Seðlabankinn metur einnig að ekki sé til staðar heimild til að kaupa erlendan gjaldeyri af fjármálafyrirtæki hér á landi eða til flutnings erlends gjaldeyris á milli landa, grundvelli viðskipta með sýndarfé.

„Þegar af þeirri ástæðu eru viðskipti með sýndarfé takmörkunum háð á Íslandi.“

Þá segir í tilkynningunni að notkun sýndarfjár geti fylgt mikil áhætta því reynslan sýni að virði sýndarfjár í viðurkenndum gjaldeyrum sveiflist mikið.


Tengdar fréttir

Íslensk rafmynt hækkar hratt í verði

Virði hinnar nýju rafmyntar, Auroracoin, hefur rokið upp á síðustu dögum og hefur hækkað um tæp 120 prósent síðasta sólarhring.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×