Viðskipti innlent

Einu matvörubúðinni á Eyrarbakka lokað: „Þetta er sárt"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Versluninni Vesturbúð á Eyrarbakka verður lokað í kvöld og frá og með morgundeginum verður því engin matvöruverslun í bænum.

„Þetta er orðin of mikil yfirlega og samdráttur í leiðinni. Það er aðalástæðan,“ segir Finnur Kristjánsson, eigandi Vesturbúðar

Er þetta sárt?

„Já mjög og ekki bara fyrir mig heldur íbúa hér á Eyrarbakka almennt,“ segir hann og viðskiptavinir sem eiga erindi í verslunina þennan síðasta daga sem hún er opin, taka undir það.

Finnur og meðeigandi hans hafa reynt að þjónusta eldri íbúa bæjarins vel og hann segir þá marga eiga erfitt með að sækja þjónustu annað. Hann vonar að opnuð verði ný verslun í bænum. „En ef ekki, þá þarf að sækja alla þjónustu héðan í burtu sem er mjög erfitt,“ segir Finnur.

Eyrarbakki var lengi mikill verslunarstaður. „Og frægur sem slíkur,“ segir Finnur. „Hér fór öll uppskipun og verslun fyrir Suðurland fram, alla leið austur á Hornafirði, undir merkjum Vesturbúðar.“

Þannig að blómatíminn er búinn?

„Kannski ekki búinn en það sverfir verulega að kaupmanninum á horninu."

Siggeiri Ingólfssyni, eða Geira á Bakkanum, finnst miður að búðinni verði lokað. „Sjoppa er ekki bara sjoppa og verslun er ekki bara verslun. Hér á Eyrarbakka er þetta líka ákveðin félagsmiðstöð,“ segir hann. „En þetta eru engin endalok. Ef einar dyr lokast þá opnast einhverjar tvær aðrar og kannski opna tvær verslanir á Eyrarbakka þegar þessi lokar. Maður verður að lifa í bjartsýni,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×