Viðskipti innlent

Starfsmenn Landsbankans fá greiddan arð

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísir/GVA
Bankaráð Landsbankans leggur til að hluthöfum verði greiddur út 70% af hagnaði bankans fyrir árið 2013 í formi arðs en Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag.

Starfsmenn bankans fengu hlutabréf gefins í bankanum á síðasta ári og skipta þeir því að öllu óbreyttu á milli sín 143,8 milljónir króna.

Fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins að heildarupphæðin gæti hækkað verulega fyrir aðalfund Landsbankans. Samkvæmt samkomulagi á milli gamla bankans og þess nýja áttu starfsmenn nýja bankans rétt á 2,08% af öllu hlutafé bankans. Þeir eiga hins vegar enn 0,5% hlut.

Hagnaður Landsbankans á árinu 2013 nam tæpum 29 milljörðum króna. Heildarhagnaður stóru bankanna þriggja nam tæpum 65 milljörðum króna.

Landsbankinn skilar mestum hagnaði og er eini bankinn þar sem hagnaður eykst á milli ára. Ríkissjóður nýtur góðs af góðum rekstri Landsbankans og mun fá 20 milljarða króna í arð vegna reksturs ársins 2013.

Landsbankinn greiddi 12,3 milljarða í skatta á síðasta ári og jókst skattheimtan um tæp 200% á milli ára.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×