Viðskipti erlent

Færeyingar finna enn meiri olíu í Noregshafi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Borpallurinn Transocean Arctic fann olíulindina.
Borpallurinn Transocean Arctic fann olíulindina. Mynd/Norska Petroleumtilsynet.
Færeysk-skoska olíufélagið Faroe Petroleum tilkynnti fyrir helgi að fundist hefðu olía og gas á Pil-svæðinu undan Þrændalögum í Noregshafi. Hlutabréf í félaginu ruku upp um nærri 15% við tilkynninguna en stærð auðlindarinnar er áætluð milli 20 og 50 milljónir olíutunna. Lindin er um 33 kílómetra frá Njarðar-vinnslusvæðinu, sem Statoil rekur, en það gefur möguleika á hagkvæmri samtengingu.

Faroe Petroleum á 25% hlut í leitarleyfinu en rekstraraðili þess er norska félagið VNG með 30%. Aðrir eigendur eru Rocksource og Spike Exploration. Þetta er þriðji olíufundur Faroe Petroleum í norsku lögsögunni á innan við ári. Í nóvember skýrðu Færeyingar frá enn stærri olíufundi, upp á 60-100 milljónir tunna, á svokölluðu Snilehorn-svæði, en Faroe á þar 7,5% hlut.

Félagið var stofnað í Færeyjum árið 1997. Það fór á breskan hlutabréfamarkað fyrir áratug og eru höfuðstöðvar þess nú í Aberdeen í Skotlandi. Faroe er eitt af þeim félögum sem leiðir olíuleitina á íslenska Drekasvæðinu en það er rekstraraðili með 67% hlut í einu þriggja sérleyfanna þar. Stærsti hluthafi þess er félagið Dana Exploration, með 23%, sem er að öllu leyti í eigu ríkisolíufélags Suður-Kóreu.

Af olíuleit í lögsögu Færeyja er það að frétta að áætlað er borpallurinn Herkúles komi þangað í næsta mánuði til að hefjast handa við að bora tvo olíubrunna fyrir 30-40 milljarða króna. Þetta verður stærsta einstaka atvinnuvegafjárfesting í sögu Færeyja.


Tengdar fréttir

Herkúlesi ætlað að finna færeyska olíu

Tveir olíubrunnar, sem norska olíufélagið Statoil ætlar að bora í lögsögu Færeyja á þessu ári fyrir þrjátíu til fjörutíu milljarða króna, verða dýrasta verkefni í atvinnusögu eyjanna til þessa. Færeyskir ráðamenn eru fullir bjartsýni.

Faroe Petroleum og Statoil finna olíulind í Noregshafi

Norska olíufélagið Statoil og Faroe Petroleum, sem Færeyingar stofnuðu árið 1997, tilkynntu í morgun um þau hefðu fundið nýja olíulind við vesturströnd Noregs. Stærð hennar er áætluð milli 60 og 100 milljónir olíutunna.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu með ítök í sérleyfi á Drekanum

Ríkisolíufélag Suður-Kóreu er komið í lykilstöðu á Drekasvæðinu, sem stærsti eigandi Faroe Petroleum. Forstjóri Faroe vonast til að koma með borpall á Drekann eftir þrjú til fjögur ár og segir félagið nægilega sterkt til að standa fyrir borunum. Olíufélag sem stofnað var í Færeyjum fyrir fimmtán árum þykir einhverjum kannski ekki líklegt til stórræðanna á Drekasvæðinu en það er engu að síður orðinn handhafi 67 prósenta í stærsta sérleyfi til olíuvinnslu á landgrunni Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×