Viðskipti innlent

Risafjárfesting á Húsavík skrefi nær veruleikanum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Húsavík og Þingeyjarsýslur færðust skrefi nær áttatíu milljarða króna stóriðju- og virkjanaframkvæmdum í dag þegar Eftirlitsstofnun EFTA  samþykkti að iðnaðarhöfn yrði byggð fyrir opinbert fé. Bæjarstjóri Norðurþings vonast til að framkvæmdir hefjist í sumar.

Fjörutíu milljarða króna kísilver á vegum þýska félagsins PCC á Bakka með lóða- og hafnargerð ásamt öðru eins í gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum eða í Bjarnarflagi, sem og háspennulínur á milli, pakki upp á samtals áttatíu milljarða króna, eru þær risafjárfestingar sem lengst eru taldar komnar í undirbúningi hérlendis.

Áður en unnt er að taka lokaákvörðun þarf hins vegar að svara því hvort fyrirhugaður stuðningur ríkisins og sveitarfélagsins við verkefnið samrýmist samkeppnisreglum evrópska efnahagssvæðisins. Svarið kom að hluta í dag þegar Eftirlitsstofnun EFTA féllst á að ríkissjóður og Norðurþing kostuðu iðnaðarhöfn á Húsavík og sagði frjálsri samkeppni ekki stafa ógn af slíkri ríkisaðstoð. Í næstu viku er von á hinum hluta svarsins, hvort skattaívilnanir til PCC samrýmis samkeppnisreglunum.

Bæjarstjóri Norðurþings, Bergur Elías Ágústsson, kvaðst í dag sérstaklega ánægður með að Eftirlitsstofnunin gerði enga fyrirvara. Bergur sagði þetta gott skref, nú yrði að bíða í viku eftir hinum þættinum, og draumastaðan væri að framkvæmdir gætu hafist í sumar. Áætlað er að 120 störf verði í kísilverinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×