Viðskipti innlent

Lögum um Seðlabankann verður breytt

VÍSIR/GVA
Lögum um Seðlabanka verður breytt að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. „Lengi hefur legið fyrir að breyta lögum um seðlabanka,“ sagði hann í þættinum Sunnudagsmorgunn á Rúv.

Vinnan við breytingarnar á lögunum stendur yfir núna í fjármálaráðuneytinu og margt er til skoðunar, að sögn Sigmundar. Alltaf hafi legið fyrir að endurskoða þyrfti þær breytingar sem ráðist var í, mjög hratt og í flýti, rétt eftir bankahrunið.

Pressan greindi frá því í vikunni að samkomulag hefði náðst milli stjórnarflokkanna um breytingar á lögum um Seðlabanka. Fjölga ætti seðlabankastjórum í þrjá en Már Guðmundsson hefur einn gegnt þeirri stöðu. Í sömu frétt sagði að ljóst væri að ráðningartími Más yrði ekki framlengdur sjálfkrafa til fimm ára, heldur staða allra þriggja auglýst til umsóknar.

Sigmundur sagði í þættinum að ákveðin rök hnigu að því að æskilegt væri að fleiri en einn gegndi starfi seðlabankastjóra. Önnur rök hnigu að því að gott væri að hafa einn en þetta væri verið að vega og meta.

Sigmundur kveðst vera ósammála stefnu Seðlabankans í nokkrum atriðum og hafa verið það um nokkurra ára skeið, meðal annars vaxtastefnunni. Hann væri ekki einn um það en bankinn hefði samt haldið sinni stefnu. Æskilegt væri að bankinn gerði meira af því að endurmeta stefnu sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×