Viðskipti innlent

Aflaverðmæti dróst saman um 7,1 milljarð

Haraldur Guðmundsson skrifar
Aflaverðmæti botnfisks var tæplega 85,2 milljarðar króna og dróst saman um 5,1 prósent.
Aflaverðmæti botnfisks var tæplega 85,2 milljarðar króna og dróst saman um 5,1 prósent. Vísir/Stefán
Aflaverðmæti íslenskra skipa á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2013 dróst saman um rúmlega 7,1 milljarð króna eða 4,6 prósent á milli ára. Fyrstu ellefu mánuðir síðasta árs skiluðu 143,9 milljörðum króna í aflaverðmæti en veiðar á sama tímabili 2012 skiluðu 151 milljarði. 

Aflaverðmæti botnfisks var tæplega 85,2 milljarðar króna og dróst saman um 5,1 prósent. Þar af skiluðu veiðar á þorski 43,4 milljörðum, sem var samdráttur um 5,4 prósent frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam 11,2 milljörðum og dróst saman um 2,7 prósent, en verðmæti karfaaflans dróst saman um 4,9 prósent þegar það nam tæpum 12,7 milljörðum. Verðmæti ufsaaflans jókst um 5,2 prósent milli ára og nam tæpum 9,3 milljörðum króna.

„Verðmæti uppsjávarafla nam tæpum 44,4 milljörðum króna í janúar til nóvember 2013 sem er um 4,1 prósenta samdráttur frá fyrra ári. Aflaverðmæti loðnu nam 15,6 milljörðum króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2013 sem er 18,2 prósenta aukning miðað við sama tímabil árið 2012. Aflaverðmæti kolmunna jókst um 9,4 prósent frá fyrra ári og var tæplega 3 milljarðar króna í janúar til nóvember 2013. Aflaverðmæti síldar dróst saman um 33,1 prósent milli ára og var rúmlega 9,6 milljarðar króna í janúar til nóvember 2013. Aflaverðmæti makríls var um 15,4 milljarðar króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2013 sem er 6,7 prósenta aukning miðað við sama tímabil árið áður. Aflaverðmæti flatfisksafla nam tæpum 9,3 milljörðum króna, sem er 4,3 prósenta samdráttur frá janúar til nóvember 2012.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 67,8 milljörðum króna og dróst saman um 3,6 prósent miðað við fyrstu ellefu mánuði ársins 2012. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands dróst saman um 0,8 prósent milli ára og nam tæplega 19,6 milljörðum króna. Aflaverðmæti sjófrystingar nam rúmum 51,2 milljörðum í janúar til nóvember 2013 og dróst saman um 6,5 prósent milli ára en verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam rúmum 4,3 milljörðum króna, sem er 16,5 prósent samdráttur frá árinu 2012 ,“ segir í frétt Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×