Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri svarar rangfærslum huldumanns

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri VISIR/ANTON
Már Guðmundsson seðlabankastjóri birti í dag athugasemdir sínar við skrif á vefsíðu Viðskiptablaðsins í gær sem birtar voru undir dulnefninu Týr.

Samhliða athugasemdunum birtir seðlabankastjóri minnsblað frá fundi sínum með þáverandi ráðherrum dagsettu 7. ágúst 2008 sem ekki hefur verið birt áður en var meðal annars í gögnum Rannsóknarnefndar Alþingis

„Þá er langt gengið því ég hef látið fjölmargar rangfærslur í fjölmiðlum óáreittar á undanförnum árum enda tíminn til nytsamlegra starfa af skornum skammti og margt leiðréttir sig sjálft með tímanum eða er svo fáránlegt að fáir taka mark á,“ segir Már í upphafi athugasemdanna.

Týr ber þær sakir á Má að hafa í aðdraganda falls bankanna haustið 2008 sagt að ódýrara væri að bjarga íslensku bönkunum en að láta þá falla.

Í minnisblaðinu kemur fram að Már taldi að meginvandi bankanna væri sá að þeir ættu við skæðan lausafjárvanda að stríða í erlendri mynt og að það gæti leitt til falls eins eða fleiri banka.



„Hvergi er talað um að „bjarga“ bönkunum, hvað þá að þjóðnýta þá eða að veita opnar ríkisábyrgðir umfram það sem gæti falist í takmarkaðri vernd innstæðueigenda,“ segir Már í athugasemdunum og bendir einnig á að áherslan hafi verið lögð á að búa til viðbúnaðaráætlun ef til falls myndi koma.

Már bendir á að hafa verði  „hins vegar í huga að minnisblaðið var skrifað fyrir öngþveitið sem varð í framhaldi af falli Lehman Brothers og að ég hafði á þessum tíma ekki aðrar upplýsingar um íslensku bankana en þær sem birst höfðu opinberlega.“

Týr dregur einnig ráðningaferli Más í efa og telur hann hafa haft óeðlileg pólitísk tengsl við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Huldumaðurinn fullyrðir að Már hafi rætt við þáverandi forsætisráðherra meðan á umsóknarferlinu stóð.

Má grunar að þar hafi hann ruglað saman samtali sem hann segist hafa átt við þáverandi formann bankaráðs um þau launakjör sem honum byðist, þæði hann starfið.

„Ég hefði heldur aldrei haft samband við Láru nema vegna þess að hæfnisnefndin sem Jónas Haralz heitinn stýrði og í áttu auk hans sæti Guðmundur Magnússson, prófessor, og Lára V. Júlíusdóttir, hafði þá nýverið sett mig í flokkinn „mjög vel hæfur“ ásamt Arnóri Sighvatssyni og nefnt mitt nafn á undan,“ segir Már og bætir við að ef „niðurstaða hæfnisnefndar hefði verið einhver allt önnur hefði ég einfaldlega unað glaður við mitt góða starf í Basel.“

Minnisblaðið má nálgast í viðhengi fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×