Viðskipti innlent

Skattar njóta forgangs við gjaldþrotaskipti

Jóhannes Stefánsson og Þorbjörn Þórðarson skrifar
Dómurinn er áhugaverður vegna umræðu um bankaskattinn.
Dómurinn er áhugaverður vegna umræðu um bankaskattinn.
Hæstiréttur staðfesti í gær að opinber gjöld teldust til skiptakostnaðar í þrotabúum að því marki sem það fellur til eftir að fyrirtæki hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptakostnaður nýtur forgangs í kröfuröð kröfuhafa sem gera kröfu í þrotabú, samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti.

Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar í máli Fjármálaeftirlitsins (FME) gegn EA fjárfestingafélagi sem féll í gær. Málavextir voru þeir að FME hafði lýst kröfu í bú félagsins (sem áður hét MP banki hf.) vegna sérstaks eftirlitsgjalds. Eftirlitsgjaldið er sérstakur skattur sem fjármálafyrirtæki greiða og er ætlað að standa undir kostnaði með eftirliti þeirra af hálfu FME.

Dómurinn er áhugaverður vegna umræðu um bankaskattinn, þ.e. fyrirhugaða skattlagningu á skuldir fjármálafyrirtækja og fjármálafyrirtækja í slitameðferð, sem lögfestur var í desember. 

Í málinu krafðist FME þess að krafan myndi njóta forgangs í þrotabúið en EA fjárfestingafélag hafnaði forgangsáhrifum kröfunnar. Félagið hélt því fram að forgangur kröfunnar væri í andstöðu við meginregluna um jafnræði kröfuhafa og að hvergi væri tekið fram í lögum að skattar gætu talist til skiptakostnaðar, sem líkt og fyrr greinir nýtur forgangs við gjaldþrotaskipti.

Opinber gjöld sem eru lögð á vegna starfsemi teljast til skiptakostnaðar

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á þessar röksemdir fjárfestingafélagsins og sagði meðal annars að vegna tilgangs lagagreinarinnar um forgangsáhrif skiptakostnaðar „telur dómurinn ljóst að rétthæð lögákveðins skiptakostnaðar, önnur en sem almenn krafa, verði að byggja á skýrri lagaheimild."

FME kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar, sem sneri honum við. Hæstiréttur rökstyður niðurstöðu sína með eftirfarandi hætti: „Opinber gjöld, sem lögð eru á þrotabú vegna starfsemi þess eftir upphaf gjaldþrotaskipta, teljast til skiptakostnaðar samkvæmt 2. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991." EA fjárfestingabanka var því gert að skipa eftirlitsgjaldi FME að fjárhæð 11.667.000 með dráttarvöxtum fremst í kröfuröðina.

Athygli vekur að Hæstiréttur notar orðalagið „vegna starfsemi þess“ í forsendum sínum en af þeim sökum er ekki hægt að fullyrða að dómafordæmið gefi grænt ljós á bankaskattinn þar sem rökstyðja má að bankaskattur sé ekki beint sprottinn af „starfsemi“ fjármálafyrirtækja í slitameðferð. 







Fleiri fréttir

Sjá meira


×