Atli Ævar Ingólfsson átti flottan leik með Eskilstuna Guif í kvöld í tveggja marka heimasigri á Ricoh, 31-29, í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta.
Guif lenti sex mörkum undir í byrjun seinni hálfleiks en leikmenn liðsins komu sterkir til baka og unnu síðustu 27 mínútur leiksins með átta mörkum, 17-9.
Atli Ævar var markahæstur í liði Eskilstuna Guif með tíu mörk úr aðeins tólf skotum en hann skoraði fimm af mörkum sínum af vítalínunni. Tandri Már Konráðsson skoraði 4 mörk og gaf átta stoðsendingar fyrir Ricoh.
Þetta var mikilvægur sigur fyrir lærisveina Kristjáns Andréssonar í Eskilstuna Guif en liðið var fyrir leikinn búið að tapa þremur af síðustu fjórum leikjum sínum. Ricoh hefur verið á góðu skriði og átti möguleika að komast í hóp átta bestu liða deildarinnar með sigri.
Tandri Már kom Ricoh fjórum mörkum yfir, 17-13, með því að skora tvö mörk í röð undir lok hálfleiksins en Atli Ævar skoraði lokamarkið í fyrri hálfleik og minnkaði muninn í 17-14. Tandri Már skoraði 3 mörk og gaf 5 stoðsendingar í fyrri hálfleiknum en Atli Ævar nýtti 4 af 5 skotum sínum í hálfleiknum.
Ricoh komst mest sex mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiksins, 20-14, en Guif-liðið kom til baka og Atli Ævar jafnaði metin í 24-24 rúmum fimmtán mínútum fyrir leikslok. Atli Ævar kom Guif líka í fyrsta sinn tveimur mörkum yfir, 27-25, þegar rúmar tíu mínútur voru eftir.
Atli Ævar frábær í sigri í Íslendingaslag
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið

Töpuðu 15-0 í síðasta leik og mættu ekki til leiks í gær
Íslenski boltinn

Fernandes ósáttur: „Dómarinn baðst ekki afsökunar“
Enski boltinn


Botna lítið í Amorim: „Hann er ein taugahrúga“
Enski boltinn

Fer í aðgerð á föstudag og frá í sex til átta mánuði
Íslenski boltinn

Sjáðu Grealish fara á kostum og öll mörkin í gær
Enski boltinn



Rooney feginn að Dowman tók ekki vítið
Enski boltinn

Isak utan vallar en þó í forgrunni
Enski boltinn