Rúmlega 60 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eru skráð eða í skráningarferli í Vakann, samræmt, opinbert gæðakerfi.
Fyrirtæki sem óska eftir aðild fara í gegnum úttektarferli sem tekur til reksturs, aðbúnaðar og umhverfis. Þegar fyrirtæki hafa uppfyllt öll viðmið Vakans fá þau heimild til að nota merkið og hafa aukið gæði og öryggi þjónustu sinnar.
Áður hefur þessi gæðavottun verið fáanleg fyrir alla þjónustu við ferðamenn utan gistingar, en henni verður bætt við nú í ár.
„Það er mikill áhugi fyrir þessu í ferðaþjónustunni, þau fyrirtæki sem standa sig best vilja fá þennan gæðastimpil. Þegar þau fá hann er búið að grandskoða þessi fyrirtæki, að allir starfshættir séu eins og best verður á kosið,“ segir Áslaug Briem, verkefnastjóri Vakans hjá Ferðamálastofu.
Hún segir Vakanum meðal annars ætlað að vera mótvægi við hálfgert gullgrafara ástand sem gripið hefur um sig í ferðaþjónustunni, þar sem svört atvinnustarfsemi virðist færast í aukana og aðilar bjóða þjónustu sína án þess að hafa til þess tilskilin leyfi.
Sextíu fyrirtæki fá gæðavottun
